Launastefna ríkisins

Miðvikudaginn 28. janúar 1998, kl. 15:53:13 (3153)

1998-01-28 15:53:13# 122. lþ. 54.91 fundur 180#B launastefna ríkisins# (umræður utan dagskrár), ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[15:53]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Virðulegi forseti. Mér var mikið niðri fyrir og ég þarf að halda áfram skýringum mínum og að deila þeim með hæstv. fjmrh. Ég lauk máli mínu áðan þar sem ég talaði um að einfaldur samanburður á kjörum karla og kvenna með háskólamenntun og svipaða ábyrgð í starfi á heilbrigðisstofnunum er konum augljóslega í óhag. Ég ætla að nefna nokkur dæmi.

Hjúkrunardeildarstjóri sem stýrir 20--25 rúma deild sem hefur umfangsmikið mannahald og þarf að halda í alla þræði fjármála deildar fær í nýju launakerfi 132 þús. kr. í mánaðarlaun. Sviðsstjóri hjúkrunar sem ber ábyrgð bæði faglega og fjárhagslega og hefur umsýslu með launa- og rekstrarkostnaði sem getur numið 1,6 milljörðum á ári, fær 153 þús. kr. í mánaðarlaun í umslaginu sínu á meðan samstarfsmaður hennar, karlkyns sviðsstjóri lækninga með sömu starfslýsingu er með þrisvar sinnum hærri laun eða 460 þús. kr. fyrir nákvæmlega sömu vinnu.

Hjúkrunarforstjóri Ríkisspítala, sem er yfirmaður 1.260 starfsmanna og ber ábyrgð á allri hjúkrun á stærsta vinnustað ríkisins, hefur svipuð laun og ungur deildarlæknir með ársreynslu eða 166 þús. kr. á mánuði. Þetta er ekki sagt til að draga úr mikilvægi þess að aðstoðarlæknar fái góð laun fyrir erfið störf og samningarnir við þá voru löngu tímabærir. En af þessu verður ekki séð að laun karla og kvenna á heilbrigðisstofnunum séu ákvörðuð með sama hætti ef borið er saman ábyrgð og skyldur. Þetta hefur nú sett kjarasamninga við hjúkrunarfræðinga í uppnám. Það er augljóslega um mikinn mun að ræða í möguleikum heilbrigðisstofnana og annarra ríkisstofnana á að borga sambærileg laun, svo ekki sé talað um launamun í einkageiranum og hjá því opinbera.

Það virðist enn fremur mega leiða að því líkur að laun innan heilbrigðiskerfisins séu ekki ákvörðuð í anda jafnréttislaga og ég spyr hæstv. fjmrh.: (Forseti hringir.) Hvernig eiga fjársvelt sjúkrahús að lagfæra þann augljósa mun sem er á launum karla og kvenna? (Forseti hringir.) Heilbrigðisstofnanir á Íslandi eru að verða með stærstu láglaunavinnuveitendum þessa lands. Er það vilji hæstv. ráðherra?