Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 10:51:44 (3159)

1998-01-29 10:51:44# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[10:51]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég efa ekki að af hálfu embættismanna og Vegagerðarinnar hafi verið lögð alúð í undirbúning þessa máls, nú sem löngum áður. Við upphaf umræðu um vildi ég hins vegar spyrja hæstv. ráðherra um það hvort að baki þessari áætlunargerð hafi farið fram stefnumótandi vinna af hálfu ráðuneytisins eða ríkisstjórnar varðandi samgöngustefnu í landinu. Mér finnst að hvort sem verið er að móta áætlun til tólf eða fjögurra ára í vegagerð, þá þurfi það að vera liður í samræmdri samgöngustefnu fyrir Ísland og samskipti okkar við umheiminn. Hvar er þessi stefna?

Önnur spurning: Hefur við mótun þessara áætlana verið tekið mið af líklegum skuldbindingum Íslands í sambandi við losun gróðurhúsalofttegunda og þeirrar stefnu sem ætti að liggja fyrir af hálfu íslenskra stjórnvalda um hvað samgönguþátturinn eigi að taka á sig í þeim efnum. Auðvitað hlýtur það að tengjast m.a. vegagerð í landinu. Fyrir liggur að samgöngumálin valda um þriðjungi af þeirri losun gróðurhúsalofttegunda sem frá Íslandi kemur og hæstv. umhvrh. hefur sagt að allir ættu að leggja þar nokkuð af mörkum til að glíma við væntanlegu skuldbindingar. Hvernig fellur það að þessum áætlunum?