Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 10:54:02 (3160)

1998-01-29 10:54:02# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[10:54]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi síðari fyrirspurn hv. þm. þá starfar á vegum samgrn. nefnd sem fæst við hvernig unnið skuli að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, svo notað sé orðalag hv. þm. Jón Rögnvaldsson aðstoðarvegamálastjóri er formaður þeirrar nefndar. Mér er kunnugt um að þessi mál hafa sérstaklega komið til umræðu í sambandi við vegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu, milli tæknimanna borgarinnar og vegamálastjóra.

Varðandi það hvort unnið sé á vegum ráðuneytisins að samræmdri samgöngustefnu er það að segja að hin síðustu ár og missiri hafa orðið miklar breytingar. Þarfir hafa breyst mjög á samgöngusviðinu. Það er augljósast í sambandi við hafnargerð. Stærri skip, djúpristari skip en áður, bæði flutningaskip og fiskiskip valda því að þörf er á dýpkun og lengri hafnargörðum en áður. Því er mjög örðugt að átta sig á því hvernig rétt sé að marka stefnu í hafnamálum fram í tímann en jafnframt er unnið að því að átta sig á breyttum viðhorfum og hvernig staðið skuli að stefnunni, auðvitað í tengslum við samgöngukerfið í heild sinni.

Eins og þessi langtímaáætlun ber með sér er fyrst og fremst við það miðað, horfi maður til dreifbýlisins, að byggja vegakerfið upp til þeirra staða þar sem 200 eða fleiri búa.