Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 10:56:20 (3161)

1998-01-29 10:56:20# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[10:56]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svör hans. Ég verð þó að segja að mjög eru þau í skötulíki í sambandi við það mál sem við erum að ræða um. Það er lítið vit í að ætla sér að taka á málum eftir á varðandi áætlanir um fjárveitingar til vegamála og þess stóra þáttar í samgöngumálum ef síðan koma upp nýjar hugmyndir og kröfur um það að breyta til vegna annarra sjónarmiða sem þörf er á að taka með í reikninginn. Þá á ég við loftslagsbreytingarnar og framlag Íslands í því efni. Menn virðast ekki hafa náð því að taka hlutina í réttri röð. Ég vil bara hvetja til þess að á meðan fjallað er um þessar áætlanir af hálfu þingnefndar þá verði það athugað hver staðan er í þessum efnum.

Sama gildir auðvitað um samþætta samgöngustefnu. Hún ætti að vera forsenda þess sem hér er verið að fjalla um. Ef litið er á þetta einangrað þá hefur Vegagerð ríkisins ekki bein stefnumótandi fyrirmæli sem taka þarf tillit til, þannig að hér fer lítið fyrir samþættri samgöngustefnu.

Hæstv. ráðherra nefndi mjög stóra og veigamikla þætti í sambandi við skipaflutninga og hafnamál. Vafalaust er það alveg rétt að þar eru breyttar forsendur í mörgum greinum sem þarf að taka afstöðu til. Sama gildir auðvitað um þungaflutninga á vegum og spurninguna um hvernig með þau efni skuli farið í framtíðinni.