Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 10:58:30 (3162)

1998-01-29 10:58:30# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[10:58]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. er myndríkur og ég er að reyna að rifja upp hvernig skata lítur út svo ég sjái sjálfan mig glöggt þegar ég stend hér í stólnum úr því að ég kom hingað í skötulíki síðast þegar ég var hérna.

Út af því sem hv. þm. vék að hér áðan vil ég aðeins segja að vitaskuld er langtímaáætlunin miðuð við þarfir samfélagsins eins og þær blasa við okkur í dag. Þess vegna er útúrsnúningur að segja að við höfum ekki í huga bæði þarfir einstakra byggðarlaga og þarfir fyrir flutninga. Ég sagði það hér áðan að menn væru að reyna að leysa umferðarvandamálin í þéttbýli með það fyrir augum að draga úr loftmengun. Það er því ekki rétt hjá hv. þm. að þessum málum sé ekki gaumur gefinn. Að tillögugerðinni er vel staðið enda gerði ég áðan glögglega grein fyrir forsendum hennar og eru þeim gerð betri skil í greinargerð með tillögunni.