Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 11:17:34 (3164)

1998-01-29 11:17:34# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[11:17]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Það eru einungis þrjú atriði sem ég vil nefna. Hv. þm. sagði áðan að gefin hefðu verið fyrirheit um jarðgöng og væri fróðlegt að fá fram hjá honum skýrt við umræðuna í hvaða röð hann telji að jarðgöng eigi að koma, hvort byrja eigi á Austurlandi eða á Norðurlandi vestra eða hvaða jarðgöng hann vilji ráðast í á Austurlandi. Úr því að fyrirheitin voru gefin um jarðgöngin þá hlýtur hann að vita hvaða jarðgöng það eru sem fyrirheit voru gefin um.

Í annan stað vil ég segja þegar hann spyr um hina sérstöku fjármögnun á höfuðborgarsvæðinu, þá hélt ég að hv. þm. og þingheimi væri kunnugt að Vegagerðin hefur unnið að því í samvinnu við samgrn. að leggja fram tillögur og gera athugun á því hvort heppilegt kunni að vera að taka hér upp svokölluð skuggagjöld eins og gert er í nálægum löndum þegar um mjög viðamikla framkvæmd er að ræða. Við getum látið okkur detta í hug t.d. tvöföldun Reykjanesbrautar eða veginn yfir Kleppsvog og upp í Mosfellssveit. Þetta mál er ekki komið það langt að það sé komið á framkvæmdastig en við verðum að vinna á þessum nótum hér á landi eins og í nálægum löndum, í þéttbýlinu þar sem kostnaður við umferðarmannvirki er mjög mikill.

Að síðustu vil ég aðeins taka fram, herra forseti, að þegar talað er um að færa fé í ríkissjóð í þessari vegáætlun, þá er gert ráð fyrir endurgreiðslu lánsfjár, 210 millj. kr., sem ákveðin var í síðustu ríkisstjórn. Þá réðumst við í framkvæmdaátak í samvinnu við Alþfl. og var þá einmitt ákveðið að fara hraðar í byrjun, taka lán til að geta flýtt vegaframkvæmdum. Hér er gert ráð fyrir að endurgreiða síðustu 210 millj. af þeim lánum sem þá voru tekin. Það er því rétt hjá hv. þm. að framkvæmdaátakinu lýkur með þessari áætlun.