Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 11:22:19 (3166)

1998-01-29 11:22:19# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[11:22]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Það kom ekki á óvart að hv. þm. vefðist tunga um tönn þegar hann var spurður beint að því á hvaða jarðgöng hann vildi helst leggja áherslu. Við heyrðum að svörin voru nokkuð óljós þegar þar kom hans máli. En ég ítreka spurninguna: Á hvaða jarðgöng vill hv. þm. fyrst og fremst leggja áherslu nú?

Í öðru lagi vil ég taka fram að á árinu 1997 var varið beint af vegáætlun 3 milljörðum kr. til nýframkvæmda og ef Hvalfjarðargöng eru tekin með er verið að tala um 5 milljarða kr. Á þessu ári, 1998, er um 3,4 milljarða að ræða og ef Hvalfjarðargöng eru tekin með eru það rétt tæpir 5 milljarðar, við getum sagt 5 milljarðar kr. Vegaframkvæmdir eru því mjög miklar í landinu nú. Ég hygg að einungis einu sinni hafi nýframkvæmdir til þjóðvega verið meiri. Það var á árinu 1973, 5,6 milljarðar kr.