Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 11:44:59 (3170)

1998-01-29 11:44:59# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., RA (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[11:44]

Ragnar Arnalds (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu getum við hæstv. samgrh. verið innilega sammála um að ekki er hægt að ráðast í allar þær framkvæmdir sem ég var að nefna í ræðu minni öðruvísi en að til komi meira fjármagn. Það er einfaldlega ekki meira hægt að gera ef ekki fæst frekara fjármagn. En þetta er kjarni málsins. Það er einfaldlega kjarni málsins að vegáætlunin er ekki fullnægjandi. Það er ekki aflað nægilegs fjár miðað við þau gífurlegu verkefni sem blasa við okkur og þar af leiðandi ber okkur að leita nýrra leiða til þess að auka fé til vegamála til að unnt sé að sinna þessum margvíslegu verkefnum.

Ég benti þar á ýmsar leiðir sem mættu koma að gagni. Ég minnti á skerðingu ríkissjóðs á vegafé á árinu. Ég minnti á að skuld ríkisins við Vegasjóð verður aldrei gerð upp og ég minnti á flóabátana sem eiga ekkert erindi í vegáætlun en taka til sín tæpan hálfan milljarð á hverju ári frá uppbyggingu vegakerfisins og margar aðrar leiðir mætti nefna. Mér finnst að ráðherrann ætti að ræða við okkur hvort ekki væru möguleikar á því að stíga skrefið djarfara og reyna að ná miklu meira fjármagni til vegamála en gert hefur verið og ætlunin er að gera samkvæmt áætlunum sem liggja fyrir.