Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 11:49:37 (3172)

1998-01-29 11:49:37# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., RA (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[11:49]

Ragnar Arnalds (andsvar):

Herra forseti. Ég minnist þess þegar fyrstu tillögur komu fram um jarðgöng á leiðinni milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar sem hæstv. ráðherra nefndi hér áðan. Það er mikill misskilningur hjá hæstv. ráðherra að flm. tillögunnar hafi staðið þar einn og þingmenn ekki stutt hann í þeim efnum. Ég var meðflm. að tillögunni ásamt fleiri þingmönnum. Hann stóð ekki einn í þeim efnum. Þetta er sem sagt gömul hugmynd, gamalt áhugamál sem við höfum lengi barist fyrir og þessi ummæli ráðherrans byggð á misskilningi.

Hjá hæstv. ráðherra mátti skilja það svo að vegna þess hve Hvalfjarðargöng tækju mikið fjármagn til sín og athafnalífið væri mikið í kringum þau þá væri ekki ráðrúm, vegna þensluáhrifa, til aukinna vegaframkvæmda á þessu ári. Ég minni á að það er engin þensla í atvinnumálum á Austfjörðum og það er engin þensla í atvinnumálum á Norðurlandi eða Vestfjörðum. Það hefði vissulega verið þörf á því, á þeim tímum að miklar stóriðjuframkvæmdir eru í gangi á suðvesturhorninu, að auka vegaframkvæmdir á Austfjörðum, Norðurlandi og Vestfjörðum og annars staðar þar sem þessara þenslu\-áhrifa gætir ekki. Ég hefði talið, í sambandi við jarðgöngin, eðlilegra að taka frá eins og einn milljarð á hverju ári til jarðgangagerðar næstu tólf árin. Vissulega getum við deilt um það í hvaða röð ætti að taka framkvæmdirnar, hvort Austfjarðagöng yrðu þau næstu eða Norðurlandsgöng. Það skiptir ekki öllu máli. Ég hygg að öllum þeim verkefnum sem við blasa á Austfjörðum, Norðurlandi og Vestfjörðum mætti sinna með miklum sóma með því að taka frá eins og einn milljarð á ári hverju á næstu tólf árum.