Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 12:08:08 (3176)

1998-01-29 12:08:08# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[12:08]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta fer nú að hljóma eins og gömul biluð plata. Framsóknarmennirnir, sérstaklega hér í þingsölum, hafa gjarnan hlaupið í þetta hornið þegar í harðbakkann hefur slegið, þ.e. að auðvitað þurfi umfram allt að halda fjármálum ríkissjóðs innan eðlilegra marka og ná niður hallanum á ríkissjóði og vissulega eru allir sammála um það. En á hv. þm. þá ekki von á því að þau markmið eigi við á komandi hausti, eða telur hann að þá gildi allt önnur lögmál og þá hætti hv. þm. Jón Kristjánsson að tala um mikilvægi þess að ná niður hallanum á ríkissjóði og ná hagstæðum tekjuafgangi þar, að þá byrji einhver nýr kapítuli í lífi þessarar ríkisstjórnar og þá allt í einu verði nægir peningar til vegamála? Er ástæða til að ætla að þá verði allt í einu hætt við þau markmið og þá allt í einu standist stór og mikil áform manna til endurbóta í vegagerð? Er það mjög trúverðugur málflutningur að koma hér og halda þessu fram? Nei, ég hlýt að svara því alfarið neitandi. Það getur ekki verið því veruleikinn sem við okkur blasir er reynsla síðustu þriggja ára og hann er algerlega skýr hvernig sem menn velta því fram og til baka, upp og niður. Hann er að finna í þeim tölum sem frá Vegagerðinni sjálfri hafa komið þar sem sýnt er upp á krónur og aura að peningar hafa runnið úr mörkuðum tekjustofnum til Vegagerðar beint inn í ríkissjóð og hv. þingmenn stjórnarinnar eru ábyrgir fyrir þeim gjörningi hvað sem öðru líður.

Mér sýnist á öllu að hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar raunar líka hafi ekki þetta blað þannig að ég ætla að ljúka þessu andsvari mínu með því að rétta hv. þm. blaðið þannig að hann hafi þessar tölur á hraðbergi.