Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 12:15:57 (3181)

1998-01-29 12:15:57# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., MS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[12:15]

Magnús Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þm. að sú þensla, sem hv. þm. ræddi um, er aðallega á höfuðborgarsvæðinu eða suðvesturhorninu. Ég hef sagt það áður í máli mínu, t.d. þegar rætt hefur verið um byggðamál. Það er m.a. eitt af því sem ég óttast fyrir hönd dreifbýlisins, þ.e. hin mikla uppbygging og þensla sem hefur verið á því svæði, sem er út af fyrir sig ágætt fyrir þjóðfélagið í heild, ekki má draga úr því. Það skarast hins vegar við hagsmuni ýmissa annarra byggða. Þetta er nú svona, þetta búum við við.

Ég vil bara segja að lokum að sú langtímaáætlun sem við erum að ræða, er að mínu viti markviss og hugmyndafræðin rökrétt og góð. (Gripið fram í: Marktæk.) Og ég lít þannig á að þessi áætlun sé marktæk. Ef ég hef aðstöðu til mun ég að sjálfsögðu vinna að því að hún gangi eftir. Ég er bjartsýnn á að það muni gerast því markmið ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna eru skýr í þessum efnum og ég vil trúa því að þetta gangi eftir og mun vinna að því.