Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 12:46:12 (3184)

1998-01-29 12:46:12# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[12:46]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spurði hvaða gildi langtímaáætlun hefði, hvort hún gæfi heimild fyrir sveitarfélög til að þau gætu flýtt framkvæmdum í trausti áætlunarinnar með því að greiða lántökukostnað. Eins og hv. þm. er kunnugt hafa verið samþykkt lög um fjárreiður ríkissjóðs og þau takmarka vitaskuld umsvif ríkisstjórnar til að flýta framkvæmdum þó svo aðrir beri fjármagnskostnað af þeim. Þess vegna er ekki um það að ræða að án atbeina Alþingis geti sveitarfélög fjármagnað framkvæmdir sem eru eingöngu langtímaáætlun.

Í sambandi við það hvort rekstur Sævars í Hrísey standist samkeppnislög má velta því fyrir sér hvort Alþingi sé heimilt að veita sérstaka styrki til flóabáta til þess að halda uppi samgöngum til Grímseyjar, í Norðurfjörð, til Hríseyjar, í Mjóafjörð, til Vestmannaeyja. Þessi mál eru öll í skoðun. Við í samgrn. höfum þegar reynslu af útboðum á flóabátum. Þannig fékk t.d. það einkafyrirtæki sem rekur Grímseyjarskipið Sæfara reksturinn í útboði. Það skip er í eigu ríkissjóðs og áður hafði einnig verið boðinn út rekstur á því skipi skömmu eftir að ég varð samgrh. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvernig staðið verði að rekstri á hinni nýju Hríseyjarferju en Sævar, sem er nú á þessari leið, var á sínum tíma smíðaður fyrir forgöngu Byggðastofnunar og hefur verið í eigu Hríseyjarhrepps.