Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 12:50:01 (3186)

1998-01-29 12:50:01# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[12:50]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Það er misskilningur hjá hv. þm. að halda að því Hríseyjarferjan Sævar sé fyrst og fremst vöruflutningaskip. Það er alls ekki svo. Sævar er farþegaferja á milli lands og eyja og er því miður of lítil. Ferjan stenst ekki hollustukröfur og er óhjákvæmilegt að endurnýja hana. Við skulum ekki gleyma því að skólabörn í Hrísey fjölmenna oft um borð í þessa ferju á leið til lands. Ef við viljum hafa öryggi þessara litlu eyjarskeggja í huga hygg ég að óhjákvæmilegt sé að almennilegt skip sé notað til slíkra flutninga.

Eins og ég sagði hafa þessi mál verið í athugun hjá okkur í samgrn. og hjá Vegagerðinni. Við höfum þegar nokkra reynslu af útboðum á flóabátum og erum með frekari útboð í undirbúningi og erum að vinna að þeim. Ég hygg að enginn vafi sé á því að okkur Íslendingum sé eins og öðrum Evrópuþjóðum heimilt að vera með nokkra byggðastyrki til þess að halda uppi samgöngum til hinna afskekktustu staða og skiptir þá ekki máli hvort við erum að tala um Ísland eða Norður-Noreg og aðra slíka staði. Það verður aldrei við því að búast að hægt sé að brúa sundið milli lands og Hríseyjar. Einhvern veginn verða Hríseyingar að eiga kost á því að geta komið til lands á hverjum degi með ódýrum hætti, ekki einungis einu sinni á dag heldur oft á dag, kvölds og morgna og um miðjan daginn. Börnin sækja skóla til landsins, menn leita lækninga og annað þvílíkt. Auðvitað ber okkur að horfa til þarfa eyjarskeggja í þessu efni.