Kjaradeila sjómanna og útvegsmanna

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 13:43:17 (3190)

1998-01-29 13:43:17# 122. lþ. 55.92 fundur 184#B kjaradeila sjómanna og útvegsmanna# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[13:43]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Deila sú sem hér er rædd utan dagskrár á Alþingi lýtur að gríðarlegum hagsmunum og veiðum við Íslandsstrendur á þeim mánuðum sem hvað mestu hafa skilað til íslensku þjóðarinnar. Þó er þessi deila er fyrst og fremst á ábyrgð samningsaðilanna sjálfra. Skoðun mín er sú að í umræðu hér á þingi verði að fara mjög varlega og gæta þess að styggja ekki eða skemma fyrir þeim viðræðum sem nú eiga sér stað.

Því miður hefur mér fundist, virðulegi forseti, sumir hæstv. ráðherrar ganga fulllangt í yfirlýsingum í þessum málum. Þar af leiðandi hefur a.m.k. annar samningsaðilinn virst fullrólegur í þessum viðræðum þrátt fyrir að loðnuvertíð sé að skella á. Samkvæmt viðtali sem Morgunblaðið birtir í dag við formann Vélstjórafélags Íslands lýsir hann m.a. yfir undrun sinni á því hversu rólegir útgerðarmenn virðast og skýrir svo að þeir séu vissir um að ríkisvaldið muni beita sér fyrir lagasetningu á Alþingi til að stöðva verkfall ef til þess kemur. Í mínum huga er það mjög afdrifaríkt ef ríkisvaldið hefur sent þessi skilaboð frá sér því að þessi deila á fyrst og fremst að vera á ábyrgð samningsaðila.

Skoðun mín er sú að ráðherrar eigi að fara varlega í yfirlýsingum um mál sem eru og eiga að vera á ábyrgð samningsaðila. Óábyrgar yfirlýsingar geta haft mjög neikvæð áhrif á samningsferlið og ég er hræddur um að það hafi að þessu sinni átt sér stað. Það skýrir að verulegu leyti þá ró sem hvílir yfir samningaviðræðunum.