Kjaradeila sjómanna og útvegsmanna

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 13:45:38 (3191)

1998-01-29 13:45:38# 122. lþ. 55.92 fundur 184#B kjaradeila sjómanna og útvegsmanna# (umræður utan dagskrár), StG
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[13:45]

Stefán Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Sú umræða sem hér fer fram um svo gríðarlega mikilvægt mál sem verkfall sjómanna er verður ekki rædd til neinnar hlítar á svo skömmum tíma sem gefst á þessum fundi.

Virðulegi forseti. Ég legg þunga áherslu á við þá sem eiga í þessari deilu að þeir geri sér grein fyrir því að sá réttur og sú ábyrgð sem þeim hefur verið fengin til nýtingar auðlindar, sem deilan snýst um, er mikil. Þjóðhagslegir hagsmunir eru einnig gríðarlega miklir um að skjót og skynsamleg lausn finnist á deilunni. Ég vil því með þessum fáu orðum leggja enn og aftur mjög þunga áherslu á að þeir sem hafa fengið nýtingarrétt að auðlindum hafsins finni ásættanlega lausn á þessari alvarlegu deilu. Annað er gersamlega óásættanlegt.