Kjaradeila sjómanna og útvegsmanna

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 13:58:51 (3197)

1998-01-29 13:58:51# 122. lþ. 55.92 fundur 184#B kjaradeila sjómanna og útvegsmanna# (umræður utan dagskrár), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[13:58]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ef stjórnvöld hefðu viljað þá hefðu þau fyrir löngu getað verið búin að breyta starfsumhverfi sjávarútvegsins þannig að deilan um verðlagningu sjávarafla hleypti ekki samskiptum sjómanna og útvegsmanna reglulega í harðan hnút. Stór hluti þessa starfsumhverfis er nefnilega bundinn í lögum. Aðilar hafa auðvitað lengi verið missáttir við það umhverfi, ekki síst sjómenn sem hafa verið mjög ósáttir við kvótabrask og viðskipti sem einstaka útgerðarmenn hafa verið að eiga við sjálfa sig. Óbreytt starfsumhverfi þjónar útgerðarmönnum fyrst og fremst enda bendir málflutningur þeirra ekki til þess að þeir kæri sig um breytingar og þeir virðast ráða vilja stjórnvalda þegar kemur að starfsumhverfi sjávarútvegsins. Ekki hefur vantað stóryrðin eða hótanirnar úr þeirri áttinni gagnvart tillögum til breytinga. Ég minni á þegar forsvarsmaður útgerðarinnar hótaði því að frekar yrði síldin látin synda hjá óveidd en að þeir greiddu fyrir veiðileyfi.

[14:00]

Nú stefnir í að loðnan syndi hjá vegna þess að útvegsmenn virðist skorta vilja til að taka þátt í þeim breytingum á kerfinu sem skapað gætu vinnufrið. Er staðhæfing Helga Laxdals í Morgunblaðinu í dag e.t.v. rétt? Það versta sem gæti gerst núna væri að stjórnvöld frystu óbreytt ástand. Það verður að taka á þeim skipulagsvanda sem við er að etja og það verður að gerast þó það komi við einhverja útvegsmenn. Vinnufriðurinn er líka einhvers virði.

Herra forseti. Útvegsmenn eiga ekki fiskinn í sjónum. Hann er þjóðareign. Það hlýtur að vera okkur öllum mikið áhyggjuefni að sjá hvernig þeir sem fengið hafa aðgang að sameiginlegri auðlind axla þá ábyrgð sem því fylgir.