Kjaradeila sjómanna og útvegsmanna

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 14:03:27 (3199)

1998-01-29 14:03:27# 122. lþ. 55.92 fundur 184#B kjaradeila sjómanna og útvegsmanna# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[14:03]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Á stundum sem þessum skilur þjóðin hversu háð við erum fiskinum í sjónum. Sjávaraflinn er þjóðinni lítils virði ef hann er ekki sóttur á haf út og fluttur til lands til frekari vinnslu og verðmætasköpunar fyrir fólkið. Til þessa verkefnis hefur þjóðin trúað sjómönnum og útgerðarmönnum. Það er rangt sem hér hefur komið fram að rót deilunnar liggi í gildandi lögum um stjórn fiskveiða. Frá því að útgerð hófst hér á landi hafa reglulega komið upp deilur milli sjómanna og útgerðarmanna óháð því hvaða kerfi hefur verið gildandi hverju sinni. Það er gömul saga og ný, enda snýst deilan fyrst og fremst um verðmyndun á afla.

Við stöndum á tímamótum. Við stöndum frammi fyrir því að milljarðaverðmæti kunni að glatast með tilheyrandi afleiðingum fyrir þjóðina alla. Þúsundir einstaklinga kunna að missa vinnu sína og laun, ekki bara sjómenn og fjölskyldur þeirra heldur og fólk í fiskvinnslu og þeirri þjónustu sem fylgir sjávarútvegi. Margar af byggðum landsins standa höllum fæti. Verkfall gæti riðið baggamuninn. Mikilvægir markaðir eru í uppnámi og gætu glatast. Stöðugleikinn kann að hverfa sem dögg fyrir sólu með þeim afleiðingum að vextir rjúki upp og kaupmáttur hrapi.

Herra forseti. Sjómannadeilan er mál þjóðarinnar allrar. Sjómönnum og útgerðarmönnum hefur verið treyst fyrir hinni mikilvægu auðlind okkar. Það er þess vegna sem þeim ber að axla þá ábyrgð og sjá til að deilur þeirra sigli þjóðarskútunni ekki í strand. Þeim ber að setja deilur sínar niður og tryggja áframhaldandi vöxt í efnahagslífi þjóðarinnar.