Kjaradeila sjómanna og útvegsmanna

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 14:05:46 (3200)

1998-01-29 14:05:46# 122. lþ. 55.92 fundur 184#B kjaradeila sjómanna og útvegsmanna# (umræður utan dagskrár), ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[14:05]

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Á þessu stigi samninganna er ástæða til að spara stóru orðin en vekja þó athygli á því hve ábyrgð samningsaðila er mikil. Það reynir á reisn þeirra og ábyrgð til þess að hnýta þá hnúta sem nú standa lausir því ljóst er að ef til verkfalls kæmi við sjávarsíðuna í febrúarmánuði, þá mundi það rugga bátnum alvarlega í flestum sjávarplássum landsins. Alvarlegar breytingar yrðu verulegar á högum margra, ekki bara einstaklinga heldur einnig fyrirtækja. Svo gífurlega hefur verið fjárfest í sjávarútvegi á undanförnum missirum að verkfall mundi valda miklum skaða. Því reynir fyrst og fremst á samningsaðila að ljúka þessari aðgerð og gera klárt á sínu dekki.