Kjaradeila sjómanna og útvegsmanna

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 14:09:35 (3202)

1998-01-29 14:09:35# 122. lþ. 55.92 fundur 184#B kjaradeila sjómanna og útvegsmanna# (umræður utan dagskrár), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[14:09]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. 4. þm. Norðurl. e. og þakka þær málefnalegu umræður sem hér hafa farið fram um þetta mikilvæga og alvarlega viðfangsefni sem þjóðin stendur frammi fyrir.

Ábyrgð samningsaðilanna er mikil og ég held að í lok þessara umræðna sé hægt að draga saman þá niðurstöðu að héðan frá Alþingi sendi menn alveg skýr skilaboð til forustumanna sjómanna og útvegsmanna um að til þess sé ætlast að þeir axli ábyrgð sína næstu daga og geri allt sem í þeirra valdi stendur til að komast að skynsamlegri niðurstöðu og koma í veg fyrir að sú vinnustöðvun skelli á sem ella blasir við. Í húfi eru miklir þjóðarhagsmunir sem snerta hverja einustu fjölskyldu í landinu ef illa tekst til.

Ég fagna þeim samhljómi sem verið hefur við umræðuna í dag og vona að þau skilaboð létti mönnum róðurinn við samningaborðið fremur en hitt.