Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 14:24:14 (3204)

1998-01-29 14:24:14# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[14:24]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Vegna orða hv. 4. þm. Austurl. um það að framkvæmdir við Hvalfjarðargöng hafi orðið til þess að seinka öðrum verkefnum á sviði jarðgangagerðar þá vil ég segja að þar er um nokkurn misskilning að ræða vegna þess að eins og allir vita eru göngin fjármögnuð með tilteknum hætti sem ekki skerðir vegafé. Hins vegar eru tengingar við göngin fjármagnaðar að hluta af vegafénu. En þá er til þess að líta að ef ekki hefði verið farið í Hvalfjarðargöngin þá hefði þurft nú þegar að ráðast í mjög umfangsmiklar framkvæmdir í Hvalfirði og það hefði verið fjármagnað annars vegar af almennu vegafé og hins vegar af Stórverkefnasjóði vegna þess að þá hefði þurft að gera ráð fyrir mikilli brúargerð í Hvalfirðinum, á öðrum stað en brúað var og framar, til þess að stytta leiðir. Þetta hefði orðið mjög kostnaðarsamt og leitt til mun meiri útgjalda en sem nemur því sem tengingarnar við Hvalfjarðargöngin kosta.

Ég vildi koma þessu á framfæri hér við umræðuna því hér var misskilningur á ferðinni.