Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 14:30:33 (3207)

1998-01-29 14:30:33# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[14:30]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Einu sinni var sagt um einn ágætan frambjóðanda austur á landi að hann væri einfasa. Þá var m.a. til umræðu nauðsynin á þrífösun á rafmagni til sveita. Mér datt þetta í hug þegar ég heyrði viðbrögð hæstv. samgrh. Í máli mínu fann ég að því að ekki lægi fyrir heildstæð samgöngustefna. Hæstv. ráðherra bregst við með því að segja: Ja, er þetta ekki bara heilmikið og gott sem liggur fyrir í vegamálum?

Ég er að sjálfsögðu að tala um samgöngur í heild sinni. Við fáum áætlun sem tekur til vegamála eingöngu en ríkisstjórnin hefur ekki mótað neina heildstæða samgöngustefnu sem tekur til samgangna að flutningum meðtöldum á sjó, á landi og í lofti. Það er það sem er um að ræða. Hæstv. ráðherra losnar ekkert frá því að áætlanagerðin hangir í lausu lofti að þessu leytinu til.

Í sambandi við nýtingu innlendra orkugjafa til samgangna er alveg skelfilegt að heyra frá hæstv. samgrh. að hann hefur ekki einu sinni haft fyrir því að kynna sér stöðu mála um þær athuganir sem fyrir mörgum árum fóru fram um hugsanlega lagningu á rafbraut milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Hver er þessi athugun og hver var kostnaðurinn? Gott væri að hæstv. ráðherra upplýsti okkur um það hér og nú. Ég fullyrði að það er eðlilegt mál og ætti að liggja skýrt fyrir við vinnu að þessari áætlun, hvaða möguleikar eru á því að taka í notkun innlenda orkugjafa í samgöngum á landi í auknum mæli, ekki síst með rafmagni, þar á meðal með lestum á teinum, ekki bara til Keflavíkur heldur miklu víðar á landinu. Ég hef nefnt austur á land eða til Hafnar í Hornafirði, á sléttu landi, og auðvitað innan bæjar í þéttbýli.