Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 14:32:59 (3208)

1998-01-29 14:32:59# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[14:32]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst taka það fram að það gerðist í fyrsta skipti á sl. vori að hafnaáætlun var samþykkt í þinginu. Nú er stefnt að því að ná því fram að langtímaáætlun í vegagerð verði samþykkt á þessu þingi og það yrði þá í fyrsta skipti sem slík langtímaáætlun næði samþykki þingsins svo langt ég man. Í þriðja lagi liggur flugmálaáætlun fyrir þinginu þannig að þess er að vænta að heildstæð áætlun um samgöngumál geti orðið afgreidd nú. Og síðan, lögum samkvæmt, ber að leggja nýja hafnaáætlun fyrir á hausti komanda. Eins og lög standa til hefur verið rétt staðið að þessu.

Ég vil í annan stað segja að ekki er rétt hjá hv. þm., og er ekki um það að fást og ekkert við því að segja þó honum sé það ekki kunnugt, að möguleikar á að leggja einhvers konar járnbraut milli Keflavíkur og Reykjavíkur hafa verið ræddir erlendis bæði af vegamálastjóra og flugmálastjóra óformlega og kannski formlega --- ég veit það ekki --- við menn sem hafa sem hafa reynslu í þessum efnum. Ég er algjörlega sammála hv. þm. um að ég tel rétt að samgn. kalli til sín þessa embættismenn og fái fram hugmyndir þeirra um hvort það sé raunhæft, t.d. að ráðast í einhverjar þær framkvæmdir sem sýndu að hagkvæmt væri eða mögulegt fyrir okkur Íslendinga að nýta okkur innlenda orkugjafa í almenningssamgöngum. Ég er síður en svo á móti því. En þær upplýsingar sem ég hef fengið um þau efni hafa ekki bent til að svo hafi verið.