Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 14:35:00 (3209)

1998-01-29 14:35:00# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., HG
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[14:35]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Herra forseti. Fyrst þetta með innlendu orkugjafana. Einhver óformleg samtöl vegamálastjóra og flugmálastjóra, líklega við einhverja menn erlendis. Það eru öll svörin sem við fáum. Er það boðlegt, hæstv. forseti, að ráðherra, sem mælir fyrir tólf ára áætlun í vegamálum, komi og fræði okkur á því að það hafi ekki verið litið á það í alvöru hvort möguleiki væri á því að nýta innlenda orkugjafa í samgöngum á landi í staðinn fyrir mjög kostnaðarsamar framkvæmdir sem sama áætlun er að fjalla um, og vísa ég þar m.a. til Reykjanesbrautar, á þriðja milljarð kr. sem er verið að tala um leggja þar í tvöföldun á þeirri akbraut. Þetta gengur ekki upp og ég hvet hæstv. samgrh. til að bæta ráð sitt við fyrstu hentugleika.

Síðan kemur þetta með þessa þrífasa áætlunargerð, hafnir, flug og vegir. Gallinn við þá áætlanagerð, sem vel kann að vera að sé unnin samkvæmt lögum, ég ætla ekki að fullyrða neitt annað en það sé farið að lögum í þeim efnum en það eru bara einfasa vinnubrögð hverju sinni. Það er bara litið á eitt hverju sinni, hafnaáætlun út af fyrir sig, vegáætlun út af fyrir sig og flugið út af fyrir sig, og allar samtengingar vantar í dæmið. Það er þar sem þessi einfösun liggur, þessi einfeldningslega framsetning á framkvæmdum sem taka stórfé og skipta sköpum í sambandi við slagæðar í þjóðlífi okkar að séu samræmdar, auðvitað með hagkvæmni í huga, og jafnframt með það í huga að við nýtum okkar eigin orkulindir sem best til þess að knýja farartækin.