Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 15:38:49 (3222)

1998-01-29 15:38:49# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., GHelg (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[15:38]

Guðrún Helgadóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það verður að segjast eins og er að Sunnlendingar eru nú kannski ekki þeir landsmenn sem við bágastar aðstæður búa varðandi vegakerfið og ber auðvitað að fagna því. Bæði er nú að landið okkar er þeim að sumu leyti mildara en annars staðar og veðrið einnig.

En þegar verið er að tala um vegakerfið í heild þá kemur mér það oft afskaplega spánskt fyrir sjónir hvað menn eru hræddir við að setja fram ákveðna forgangsröð. Ég hef margsagt það áður að mér gjörsamlega óskiljanlegt af hverju menn taka breikkun Reykjanesbrautar fram fyrir Suðurstrandarveginn. Sá vegur ætti fyrir löngu að vera staðreynd, vegurinn frá Grindavík og niður á ströndina. (Gripið fram í: Hárrétt.) Vissulega mundi það spara umferð á Reykjanesbrautinni. Ég vil því enn og aftur berjast fyrir þessari leið sem mundi opna auðveldara samband milli blómlegra fyrirtækja sem eru niðri í Þorlákshöfn og suður á Suðurnesjum og allar samgöngur við flugvöllinn af Suðurlandi, þar sem menn verða alltaf að flækjast til Reykjavíkur ef þeir ætla að komast suður í Keflavík. Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt. Menn eiga að taka sig saman í andlitinu og leggja þennan veg. Þá er það mál búið.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég þarf nú að kyngja þrisvar áður en ég set í forgangsröð að komast í gegnum Hellisheiðina og vildi bara spyrja: Er ekki hægt að taka þar verstu veðravítin af með hreinlega einhvers konar skála eða yfirbyggingu? Ég mundi frekar líta til Hafnarfjallsins heima hjá honum hv. þm. Gísla Einarssyni, þar sem menn eru í lífshættu helminginn af árinu við að reyna að bögglast þarna fram hjá. Auðvitað má vegáætlun aldrei fara út í það að verða keppni milli hinna ýmsu kjördæma. Þar verðum við að reyna að stríða við þetta land okkar, berjast við verstu veðravítin og setja í forgangsröð þá vegarkafla sem mest skortir á hverjum tíma.