Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 16:06:38 (3230)

1998-01-29 16:06:38# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[16:06]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta er hálfgerður útúrsnúningur hjá hæstv. ráðherra um jarðgöngin sem ég sé varla ástæðu til að svara. Það liggur gjörsamlega í hlutarins eðli að það er miklu þyngri róður að berjast fyrir verkefnum sem hafa ekki þá hlotið náð fyrir augum manna að vera settar einhvers staðar inn í áætlun eða framkvæmdaröð á næstu 12 árum. Það verður a.m.k. ekki gert öðruvísi en annað tveggja komi til, hreint viðbótarfjármagn sem nemur öllum þeim kostnaði eða að annað verður að víkja því að sama krónan verður ekki notuð til að borga mismunandi hluti. Þetta er augljós staðreynd.

Einnig er alveg ljóst að það er miklu sársaukafyllra fyrir menn að sætta sig við að verkefni sem er þó búið að sýna í áætlun verði skorin niður. Það er verra að gera það vegna þess að það á að reyna að byggja upp tiltrú og traust á þessum áætlunum. Þar hefur hæstv. samgrh. verið að vísu verri en enginn því að hann hefur einmitt ekki umgengist þegar samþykktar áætlanir og ákvarðanir Alþingis um framkvæmdaröð af nægjanlegri virðingu að mínu mati og mætti þar færa ýmis dæmi til sönnunar. Það grefur undan tiltrú manna á þessu, það grefur undan trausti þeirra sem eiga að fá úrlausn mála sinna aftarlega á ætlunartímanum. Til þess að sæmileg sátt og friður geti verið um hlutina og menn sættist á að bíða úrlausnar sinna mála í einhver ár á grundvelli þess að hún komi seinna á áætlunartímanum verður að ríkja traust og trúnaður hvað það varðar að mönnum sé alvara. Þetta er alveg augljóst mál. Þess vegna er mjög erfitt að sjá það fyrir sér nema undur og stórmerki gerist í sambandi við stóraukið fé umfram það sem er á dagskrá að mjög fyrirferðarmiklum og dýrum framkvæmdaflokki eins og jarðgöngum verði auðveldlega komið inn á nýjan leik ef þeim verður hent út, en það er það sem verið er að leggja til. Jarðgöng hafa verið hluti af áætlanagerðinni um langt árabil, þau hafa verið þar alveg frá því fyrir 1990 þangað til nú að hæstv. samgrh. leggur til að þau séu þar ekki á blaði nema með einhverju óljósu orðalagi um að þau geti þá komið til sögunnar sem hrein viðbót.