Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 16:30:00 (3236)

1998-01-29 16:30:00# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[16:30]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Ég lít þannig á að hv. þm. hafi svarað spurningu minni, sem var ósköp einföld og skýr, játandi. Hann hefur ekki lifað annað en að skera niður markaðar tekjur til vegamála. Hann hefur í öll þau skipti sem hann hefur tekið þátt í afgreiðslu fjárlaga dregið peninga út úr vegamálum og inn í ríkissjóðshítina. Svarið er með öðrum orðum jákvætt.

Hv. þm. sagði að ýmislegt mætti nú gera þó ekki væri það á blaði og vísaði til þess að hv. þm. kjördæmisins hefðu í góðu samstarfi fjármagnað ýmsar aðrar markverðar framkvæmdir, Garðveg, Mosfellsbæ, og það er rétt. En af því hann nefndi hér sérstaklega, það er ástæða til að leiðrétta það í eitt skipti fyrir öll og bóka, þá hefur hv. þm. gjarnan talað um lýsingu Reykjanesbrautar eins og sitt einkamál. Að stærstum hluta voru fjármunir til lýsingar Reykjanesbrautar uppsafnaðir peningar frá síðasta kjörtímabili. Og ákvörðun um lýsingu Reykjanesbrautar var tekin af þingmannahópi sem var hér á síðasta kjörtímabili, hv. þm. var þá ekki kominn til skjalanna. Ég vildi bara hafa þetta á hreinu þó það skipti auðvitað ekki sköpum um þá framtíð sem við erum að skoða.

Ætlar hv. þm. að fullyrða hér og standa við það að nánast hver einasta aukatekin króna sem hér er frátekin til almennra verkefna eigi að fara í Suðurstrandarveg, þetta eina verkefni? Dettur honum í hug að ekki falli til ýmis önnur verkefni á svæðinu frá Hafnarfirði og suður úr? Mér dettur ekki í hug að ætla annað. Það er auðvitað fullt af verkefnum sem annaðhvort eru í deiglunni eða munu koma. Þar eru smáverkefni og kannski miðlungsstór verkefni þannig að auðvitað er ekkert um það að ræða að menn geti hér og nú ráðstafað heilum 750 millj. kr. til almennra verkefna í eitt verkefni, sem sannarlega er stórverkefni og á að lista það sem slíkt en ekki einhvers staðar á óskrifuðu blaði.