Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 16:32:38 (3237)

1998-01-29 16:32:38# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[16:32]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðmund Árna Stefánsson brestur algjörlega minni þegar hann ræðir um framkvæmdir eins og þær hafa verið skipulagðar bæði á þessu kjörtímabili og því síðasta. Þegar hann talar um lýsingu Reykjanesbrautar, eins og það hafi verið ákveðið á síðasta kjörtímabili, þá er það algjör misskilningur. Þær tillögur sem komu inn á borð þingmanna á fyrstu mánuðum þessa kjörtímabils voru allt aðrar en að lýsa Reykjanesbrautina. Þær tillögur gengu út á að að setja eina akrein sitt á hvað sem kosta átti 650 milljónir með mislægum gatnamótum á leiðinni. Ekki var minnst á að lýsa ætti Reykjanesbraut. Það var ekki einu sinni í tillögum. Við sem komum nýir inn í þingið báðum um að fá það inn í tillögurnar hvað það mundi kosta að þessi leið yrði lýst. Síðan var reynt að meta þetta ásamt tillögum sem sérstakur hópur frá Vegagerðinni hafði gert fyrir atbeina þingmanna. Tillögur þessa hóps, sem skipaður var á síðasta kjörtímabili fólu ekki í sér lýsingu Reykjanesbrautarinnar. Hv. þm. virðist þannig algjörlega hafa gleymt því hvernig hópurinn frá Vegagerðinni varð til og að tillögur hans á kjörtímabilinu eru allar á þann veg að breikka brautina í stað þess að lýsa hana.

Varðandi tvöföldun á síðasta tímabili... (Gripið fram í: Hringdu í Salome, Kristján.) Ég þarf ekkert að hringja í Salome, ég get sýnt þér tillögur því ég fékk þær sjálfur nákvæmlega eins og þú í upphafi kjörtímabilsins. Og þú verður, hv. þm., að spyrja t.d. Vegagerðarmenn hérna frammi hvort þetta sé ekki rétt hjá mér.