Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 16:36:40 (3239)

1998-01-29 16:36:40# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[16:36]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Út af fyrir sig er ekki verið að kýta um lýsinguna á Reykjanesbrautinni en ég er neyddur til að leiðrétta hv. þm. þegar þeir fara hér með rangt mál um tilurð framkvæmdarinnar. M.a. var fullyrt af hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni að þetta hafi verið uppsafnað fé frá síðasta kjörtímabili. Það er algjör misskilningur. Auðvitað verður að leiðrétta misskilning þann sem fram kemur frá hv. þingmönnum Alþfl.

Að öðru leyti held ég, herra forseti, að hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir sé ósköp vel inni í því hvernig staðið hefur verið að vegamálum. Ég tek alveg undir að auðvitað má gera betur í þeim. Ég hefði sannarlega viljað geta gert betur en eigi að síður finnst mér hafa verið unnið að þessu með mikilli ábyrgð og festu. Við komum því í fyrsta skipti í sögunni inn áætlun til langs tíma sem gefur þingmönnum og sveitarstjórnarmönnum möguleika á því að flýta framkvæmdum þar sem þær eru komnar á áætlun. Slíkt hefði ekki verið mögulegt ef ekki hefði verið um slíka áætlun að ræða. Ég tel að við séum að opna dyr sem ekki hafa verið opnar áður og eiga að geta fleytt okkur áfram með þau verkefni sem ég minntist á áðan, Suðurstrandarveginn, tvöföldun Reykjanesbrautarinnar og mörg önnur verk í kringum landið sem fólkið bíður eftir.