Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 17:24:31 (3256)

1998-01-29 17:24:31# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., VE
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[17:24]

Vilhjálmur Egilsson:

Hæstv. forseti. Sú till. sem er til umfjöllunar um þál. um vegáætlun fyrir 1998--2002 og till. til þál. um langtíma\-áætlun í vegagerð eru báðar allmerk plögg. Þess vegna er ástæða til að þakka fyrir þá vinnu sem hefur verið lögð í stefnumörkunina og þá tilraun sem þar er gerð til að horfa fram í tímann og forgangsraða verkefnum og framkvæmdum eftir mikilvægi þeirra. Að mínu áliti má segja að allvel hafi tekist til að mestu leyti en þó er þarna allmikill hængur á sem ég tel að þurfi að laga í meðförum þingsins.

Hængurinn er sá að gengið er út frá því í upphafi að ekki skuli ráðist í gerð jarðganga á þessu tímabili, þ.e. frá 1998 og til loka langtímaáætlunarinnar. Ég tel að ekki sé rétt stefnumörkun að útiloka þannig jarðgangagerð og að það þurfi að vega það og meta með tilliti til annarra framkvæmda og með tilliti til þeirra þarfa sem eru til staðar á viðkomandi stöðum. Það sem snýr fyrst og fremst að okkur þingmönnum Norðurl. v. er að sjálfsögðu umræðan um jarðgöng á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar um Héðinsfjörð.

Rætt hefur verið um þessi jarðgöng í nokkur ár. Ég hygg óhætt að nefna það að Sverrir Sveinsson, rafveitustjóri á Siglufirði, sem hefur oft komið inn sem varaþingmaður, hefur verið mjög ötull við að koma því máli á framfæri í þinginu. Síðan hafa Siglfirðingar og Ólafsfirðingar mjög horft til þessara ganga sem leiðar til þess að tengja saman byggðirnar. Eftir því sem tíminn hefur liðið hafa væntingar íbúa á þessum stöðum vaxið til þess að unnt væri að leggja göngin.

Fyrir nokkrum árum má segja að sú skoðun hafi verið útbreidd að jarðgöng á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar væru ekki raunhæfur kostur, að þau væru allt of dýr og í rauninni ekki á færi okkar að leggja þau. Þá var lögð allmikil áhersla á það að fá uppbyggðan veg yfir Lágheiði milli Fljóta og Ólafsfjarðar. Eftir því sem tíminn hefur liðið og jarðgöng eru almennt að verða ódýrari og auðveldari í lagningu hefur þetta breyst. Hin allra síðustu ár hafa sífellt fleiri álitið og nú er það orðin almenn skoðun á þessum stöðum, Siglufirði og Ólafsfirði og um utanverðan Eyjafjörð og um Skagafjörð, að jarðgöng milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar séu eina raunhæfa tengingin og eina lausnin sem er eitthvað vit í þegar horft er til framtíðar. Þess vegna er ekki auðvelt fyrir mig að lofa því að samþykkja að eftir svo og svo mörg ár eigi að leggja veg yfir Lágheiði sem er lausn sem er ekkert í takt við tímann og er lausn sem hefði kannski verið raunhæf fyrir 10--15 árum en er alls ekki raunhæf í dag. Ég vil láta þetta koma fram strax við fyrri umr. málsins og vona að hægt sé að taka tillit til þess í meðförum málsins í þinginu.

Ég að rétt sé að nefna að það er ekki eins og enginn trú hafi verið á byggð eða framtíð þessara staða. Það er búið að fjárfesta fyrir gífurlegar upphæðir í atvinnulífinu á Siglufirði. Ólafsfjörður hefur átt í töluverðum erfiðleikum en ég vona að þeir séu tímabundnir og að menn muni aftur fá trú á því að fjárfesta þar og byggja þar upp atvinnulíf jafnmyndarlega og tekist hefur að gera á Sigulfirði á undanförnum árum.

[17:30]

Ég tel þess vegna að það sé eðlilegt hlutverk ríkisvaldsins að sjá til þess að þær fjárfestingar sem verið hafa í atvinnulífinu nýtist sómasamlega og að þær fjárfestingar sem gerðar eru í samgöngumannvirkjunum stuðli að frekari atvinnuuppbyggingu á þessum stöðum. Ég tel að vegur yfir Lágheiði sé ekki nægilega góður stuðningur við það samstarf sem er nú komið milli atvinnulífsins á Siglufirði og Ólafsfirði og heldur ekki nægilega mikill stuðningur við þá viðleitni sem er á þessum stöðum að sameina þau byggðarlög í eitt sveitarfélag. Ég tel því að einboðið sé að ekki megi afskrifa þann möguleika sem er á jarðgöngum milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar með þeim hætti sem gert er í langtímavegáætluninni. Ef hún yrði samþykkt óbreytt mætti skilja það svo að verið væri að samþykkja að byggja veg yfir Lágheiðina en göngin væru ekki inni í myndinni. Og ég vil ekki að hægt sé að segja það um mig að ég hafi samþykkt að leggja þann veg.

Það er mjög gott að ákveðið skuli vera að leggja fé í rannsóknir á jarðgöngum á Norðurlandi, Austurlandi og Vestfjörðum. Ég tel því eðlilegra að í stað þess að ræða um Lágheiðarveginn beint væri því orði skipt út fyrir hugtakið: vegtengingu á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, þannig að þetta yrði opið. Ég tel að það væru fjárfestingarmistök að leggja fé í Lágheiðina og þess vegna ætti ekki að gera það miðað við þá stöðu sem uppi er í málinu. Málið er komið til umræðu og fer til hv. samgn. og það verður væntanlega ekki afgreitt fyrr en í vor. Ég tel að þvílíkir úrvalsmenn séu í samgn. og það mikill skilningur á þessu máli hjá samgrh. sem hefur verið annt um jarðgöng milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, að hægt ætti að vera að skoða þetta mál. Ég hef ekki trú á öðru en það endi með því að þessu verði breytt þannig að í staðinn fyrir að þarna standi Lágheiði komi inn orðið vegtenging. Ég treysti á að þeir samgöngunefndarmenn sem þekktir eru að réttsýni, sanngirni og drengskap muni taka þetta mál fyrir og hafa forustu um að þessu verði breytt í góðu samkomulagi við hæstv. samgrh.