Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 17:35:51 (3258)

1998-01-29 17:35:51# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[17:35]

Vilhjálmur Egilsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Allra síst vil ég standa að því að beita blekkingum við gerð þessarar áætlunar. Ég vil kannski þess vegna velta því fyrir mér hvort ekki sé verið að blekkja með því að setja inn þetta orð, Lágheiði, vegna þess að ég tel að sá vegur verði í rauninni aldrei lagður og ekkert þýði um það að tala að bjóða fólki upp á það á næstu öld að leggja þennan veg og hafa tengingu milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar á þann hátt sem alls ekki er í takt við þá tíma og þær þarfir sem þar eru til staðar. Þess vegna tel ég að skynsamlegra væri að kalla þetta vegtengingu, þannig að þetta væri opið. Það væri alveg hugsanlegt að færa fjármagnið þarna til þannig að fjárveitingin byrjaði á þriðja tímabili að stærstum hluta, og að við værum í rauninni að reikna með því að hafin væri jarðgangagerð milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar á þriðja tímabili sem síðan gengi yfir á tímabilið eftir 2010, og yrði fjármögnun á því verki þá lokið. Ég tel þess vegna að það væri útlátalaust fyrir þingmenn og í rauninni ekki frá neinum tekið að breyta þessu orði, Lágheiði, yfir í vegtengingu milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar og það mundi þess vegna ekki ganga á hagsmuni neinna annarra.