Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 17:37:48 (3259)

1998-01-29 17:37:48# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[17:37]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég átta mig ekki alveg á því af hverju verið er að reyna að gera þessa áætlun tortryggilega með því að tala um Lágheiðina með þessum hætti. Ég er hiklaust þeirrar skoðunar að það geti ekki beðið í 14 eða 15 ár að koma á vegasambandi milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Og að láta sér detta í hug að það geti staðist að ekki verði farið að huga að jarðgöngum á milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar fyrr en síðast á þriðja tímabili, eftir 12 ár. Það verður að vera komin niðurstaða í tengingu þarna á milli fyrir þann tíma. Ég er raunar þeirrar skoðunar að niðurstaða verði að vera komin í það á næstu fjórum árum hvort ráðist verður í göng milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Með því að setja 680 millj. kr. í Lágheiðina er komið 20% af því fé sem búast má við að jarðgöng kosti. Ef hv. þm. Norðurl. v. kýs á hinn bóginn að við á þessum vetri látum sverfa til stáls um það hvort á næstu 12 árum verði ráðist í ein jarðgöng á Austurlandi eða Norðurlandi, þá er ég ekki viss um, eins og mál standa núna, að það verði neitt bjartara yfir þeirri niðurstöðu. Ég held þess vegna að þingmenn bæði Austurlands og Norðurlands eigi aðeins að athuga sinn gang, leggja fé til rannsókna og gera sér grein fyrir því hvernig þeir vilji standa að málum þegar að jarðgangagerðinni kemur. Það eru ekki forsendur fyrir því að hægt sé að heimta jarðgöng hér og jarðgöng þar. Ef við lítum á allt það fé sem er til stofnbrauta, ætli það sé ekki eitthvað í kringum 25--26 milljarðar á þessum 12 árum. Bara hér í dag er búið að stinga upp á jarðgöngum í fjórum fjórðungum sem er sennilega tvöföld sú fjárhæð. Um hvað eru menn að tala? Er þetta raunhæft?