Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 17:40:13 (3260)

1998-01-29 17:40:13# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[17:40]

Vilhjálmur Egilsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. samgrh. ræðir um að á næstu fjórum árum eigi að skoða málið varðandi jarðgöng milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Ég held að betur færi þá á því að í tillögunni stæði: vegtenging milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, fyrst það er á annað borð eitthvað skoðunarvert. Ef þar stæði einungis Lágheiðarvegur eða Lágheiði og eyrnamerkt ákveðin upphæð sem er nægileg til að leggja þann veg þá munu þingmenn náttúrlega koma eftir fjögur ár og halda því fram að Alþingi hafi samþykkt að leggja veg yfir Lágheiði en ekki samþykkt jarðgöng milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Þetta liggur að sjálfsögðu fyrir og ætti því að vera algerlega útlátalaust að breyta þessu orði, að kalla þessa tengingu vegtengingu milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar í staðinn fyrir veg yfir Lágheiðina. Ég veit að íbúum á Siglufirði og Ólafsfirði mundi líða betur að vita af því að gera ætti jarðgöng þarna og byrja á þeim eftir tíu, ellefu ár eða vonandi níu ár eða átta ár frekar en vera með það í hendi að leggja veg yfir Lágheiði eftir sex eða sjö ár og standa þá frammi fyrir því að tómt mál væri að tala um göng, ekki bara á fyrri hluta næstu aldar heldur jafnvel á síðari hluta næstu aldar líka. Ég vil því eindregið hvetja samgrh. og samgn. til að hnika þarna til þessu orði og sýna ákveðinn sveigjanleika sem er algerlega útlátalaus fyrir þá og fyrir alla aðra þingmenn á hinu háa Alþingi.