Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 17:42:36 (3261)

1998-01-29 17:42:36# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., GMS
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[17:42]

Gunnlaugur M. Sigmundsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að lýsa ánægju minni með þá langtímaáætlun í vegagerð sem hér er til umræðu og lögð hefur verið fram, áætlun sem gildir fyrir árin 1999--2010. Sérstaklega lýsi ég ánægju minni með þau breyttu vinnubrögð sem nú eru notuð þar sem á að stokka upp gamla úthlutunarreglu á því fé sem varið er til stofnvega. Hlutföll milli kjördæma hafa í langan tíma verið reiknuð út frá kostnaði, ástandi og arðsemi vega. Það er nokkuð ljóst að þegar menn eru með áætlun þar sem fyrirséð er að um 30--50 ár taki að koma almennilegu vegasambandi á úti í hinum dreifðu byggðum, þá eru slík vinnubrögð oft næsta marklítil. En núna er ríkisstjórnin að gera átak í því að koma þéttbýlissvæðum með 200 íbúum eða fleiri í almennilegt vegasamband við hringveginn. Ég held að flestir þingmenn séu mjög sáttir við það þótt menn kunni að greina á um hvernig röðun skuli háttað innan áætlunarinnar. Það er alveg ljóst að í mínu kjördæmi, á Vestfjörðum, er ástandið mjög erfitt. Þessa dagana er vegurinn um Ísafjarðardjúp nánast ekki fær, ekki sakir snjóalaga heldur þess hversu erfitt hefur verið að halda þeim vegi akfærum vegna þess að skort hefur fé til viðhalds á veginum.

Í áætluninni felst að menn ætla að gera átak í því að koma Ísafjarðarbæ og byggðunum þar í kring, Bolungarvík og Súðavík, í almennilegt vegasamband við hringveginn á næstu tveimur tímabilum, en fyrra tímabilið er frá 1999--2002, þar sem verja á 530 millj. kr. í Ísafjarðardjúpið og síðan 510 millj. á síðara tímabilinu, sem er frá árinu 2003--2006.

[17:45]

Rétt er að taka fram að þó að það séu nokkurn veginn jafnar fjárhæðir sem koma á hvort tímabil er næsta ljóst að á fyrra tímabilinu má laga mjög stóran hluta af veginum um Ísafjarðardjúp þó að ákveðnir erfiðir og dýrir kaflar verði skildir eftir eins og vegurinn inni í Ísafirði þar sem á honum eru nokkrar erfiðar brýr sem þarf að endurbyggja. Það er ekki eins og það taki þessi tvö tímabil að gera Djúpið að góðum vegi heldur mun stór hluti af því vinnast strax á fyrsta tímabilinu.

Auðvitað skyggir nokkuð á gleði okkar við að sjá fram á að Vestfirðir komist í samband við hringveginn að ekki er gert ráð fyrir því í áætluninni að komið verði á vetrarhringtengingu um Vestfirði þannig að enn um sinn mun verða lokað að vetri til úr Dýrafirði og yfir í Arnarfjörð. Hins vegar hafa menn þar verið með hugmyndir um að leysa þá tengingu með jarðgöngum úr Kjaransstaðadal og yfir að Mjólká. Rétt er að taka fram að í áætluninni eru 120 millj. kr. sem verður m.a. varið til rannsókna á jarðgöngum og vegarstæði í kringum þau á Vestfjörðum og fleiri stöðum á landinu.

Vestfirðinga greinir á um forgangsröðun vissra hluta á Vestfjörðum. Eitt af því sem hefur kannski valdið hvað mestum deilum er vegurinn frá Hólmavík og tengingin við hringveginn. Í uppkasti að vegáætluninni var miðað við að sá vegur yrði um svokallaðan Arnkötludal en eftir að hæstv. samgrh. var bent á ýmsa vankanta í því sambandi féllst hann á þá þáltill. sem er síðan til umfjöllunar þar sem gert er ráð fyrir því að það verði annað hvort vegurinn um Strandir eða svokallaður Tröllatunguvegur.

Að vísu er rétt að taka fram, og ég bið hv. samgn. að taka það til athugunar, að það þarf að breyta þeim orðum sem notuð eru því að Hólmavíkurvegur er einungis vegurinn frá skemmu Vegagerðarinnar við Hólmavík og niður á höfn og að verja 700 milljónum í þann veg er náttúrlega vel í lagt því að það mundi þýða að hægt væri að gera býsna mikið á þessum stutta kafla fyrir þann pening. En auðvitað er þarna átt við að verja 700 millj. í veginn um Strandir til þess að laga veginn frá Hólmavík og að vegtengingu við Brú í Hrútafirði. Í rauninni er þetta kaflinn frá Þorpum og suður að Prestbakka, og ég treysti því að hv. samgn. lagi þessi orðamistök þarna.

Í mínum huga er ekki nokkur efi á að við þurfum að ljúka við veginn um Strandir áður en farið verður að huga að nýjum vegum eins og veginum um Arnkötludal en mér vitanlega hefur þar ekki enn þá farið fram nein athugun hvorki á snjóalögum né hversu fýsilegt sé að leggja veg um þann dal. Ég vonast til þess síðar að við fáum bæði almennilegan Strandaveg og veg um Arnkötludal en í mínum huga þarf að klára Strandaveginn fyrst áður en menn geta farið að huga að Arnkötludalsvegi.

Samgöngur við Vestur-Barðastrandarsýslu eru nánast engar í hefðbundnu vetrarárferði nema með ferjunni sem gengur úr Stykkishólmi í Brjánslæk. Hér er með miklum metnaði gert ráð fyrir að ljúka tengingunni Patreksfjörður í Bjarkarlund eða Gilsfjarðarbrú á því tímabili sem er til umræðu. Að vísu skiptist þetta á þessi þrjú tímabil þar sem byrjað er á því að ljúka við veginn frá Patreksfirði í Brjánslæk. Ég vek athygli á því að fyrirséð er að sú lausn sem nú er, þ.e. að vera með ferju frá Brjánslæk í Stykkishólm, þarf að vera áfram eða fram til þess tíma að vegtengingunni er lokið yfir í Gilsfjörðinn og það þarf að bæta þær ferjusamgöngur á meðan. Ég treysti hæstv. samgrh. til þess, núna þegar hann losnar við að þurfa að kosta ferjuna sem gengur upp á Akranes, að koma á betri ferjusamgöngum milli Stykkishólms og Brjánslækjar.

Við megum heldur ekki gleyma því að þó að talað hafi verið um Ísafjarðardjúp þarf auðvitað að gera átak í því að auka öryggi á veginum um Óshlíð. Það er líka mjög dýr aðgerð sem þarf að gera á vegtengingunni við Bolungarvík, á Ósánni þar, og það þarf að huga að öryggi á Súðavíkurvegi.

Þingmenn hvers kjördæmis hafa 700 millj. kr. úr að spila til þess að raða niður á verkefni sem er ekki skipt upp samkvæmt þeirri vegáætlun sem fyrir liggur. Við hljótum að verja hluta af þeim fjármunum í þau mál sem ég hef hér nefnt, þ.e. að auka öryggi á Óshlíðinni og Súðavíkurvegi. Auk þess hljótum við að þurfa að laga Ennishöfðann í Strandasýslu strax því að þar er einn helsti farartálminn að vetri og Kollafjörðurinn norðan megin þó að ég reikni með því að endanleg vegagerð þar sé hluti af þeim 700 millj. kr. sem á að verja til þess að tengja Hólmavík við hringveginn. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að mjög margir kostir séu fyrir Vestfirði að vetri að tengjast frekar hringveginum yfir á Holtavörðuheiði því að Holtavörðuheiðin er það þýðingarmikill hlekkur í samgöngum á landinu öllu að þar mun um ókomna tíð verða meiri snjómokstur en menn leyfa sér á öðrum vegum og þess vegna held ég að mikill kostur sé að fara þá leið þó að hitt komi til skoðunar síðar.

Í ánægju okkar með að hinar dreifðu byggðir geti farið að horfa fram á betri vegsamgöngur megum við ekki gleyma því að til eru svæði á landinu sem þarf að muna eftir, svo sem Árneshreppur þar sem eru þó um 80 manns og einnig þarf að muna eftir Kollsvíkurveginum. Nokkuð mikið mál var gert úr styrkveitingu til flugsamgangna á Norðurlandi eystra en ég tek fram að mér fannst, eins og hæstv. samgrh. stóð að því, að þar hafi verið fljótt og vasklega að verki staðið. Ég efast um að rétt sé að menn þurfi að vera að hlaupa með hvern smálegg og bjóða hann út á einhverju Evrópsku efnahagssvæði. Ég vænti þess að menn leysi málefni Árneshrepps og samgöngur þangað án þess að blanda Evrópska efnahagssvæðinu í það með einhverri kröfu um að menn séu að bjóða það út suður um alla Evrópu. Mér finnst það hreint rugl sem búið er að róta upp í því máli. Ég var mjög sáttur við hvernig hæstv. samgrh. leysti það mál á Norðurlandi eystra og vonast til þess að menn fari ekki að tefja mál í Árneshreppi þegar þau mál verða leyst, vonandi sem allra fyrst.