Rannsókn á störfum fíkniefnadeildar lögreglunnar

Mánudaginn 02. febrúar 1998, kl. 15:11:35 (3267)

1998-02-02 15:11:35# 122. lþ. 56.3 fundur 92. mál: #A rannsókn á störfum fíkniefnadeildar lögreglunnar# beiðni um skýrslu frá dómsmrh., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[15:11]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Í desember sl. skilaði ég Alþingi skýrslu samkvæmt beiðni 11 þingmanna. Farið var fram á að flytti Alþingi sjálfstæða skýrslu um rannsókn sem fram fór í kjölfar umræðu á Alþingi um ásakanir á hendur lögreglunni þess efnis að meintur fíkniefnasali starfaði í skjóli hennar. Var þess jafnframt farið á leit að ég skilaði ítarlegri greinargerð og rökstuðningi um atriði sem talin voru upp í átta stafliðum.

Í umræddri skýrslu um rannsókn á störfum fíkniefnadeildar lögreglunnar er í ítarlegu máli gerð grein fyrir aðdraganda málsins, niðurstöðum rannsóknar þeirrar sem efnt var til og þeim aðgerðum sem gripið var til í kjölfarið. Þá er þar að finna ítarlega greinargerð og rökstuðning vegna sérstakra fyrirspurna skýrslubeiðenda.

Í skýrslunni er gerð grein fyrir forsögu málsins. Helstu málsatvik eru þau að skipaður var sérstakur rannsóknarlögreglustjóri til að annast rannsókn málsins og skilaði hann skýrslu sinni til ríkissaksóknara 11. júní 1997. Í skýrslu þessari er gerð grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í samræmi við fyrirmæli í 77. gr. laga um meðferð opinberra mála en þar segir að rannsóknari skuli að jafnaði þegar rannsókn er lokið, senda greinargerð þar sem fram komi samandregin lýsing á atriðum sem hann telji ákæru geta beinst að.

Vikið er að helstu niðurstöðum setts rannsóknarlögreglustjóra í skýrslu minni. Ríkissaksóknari tók í kjölfarið málið til skoðunar og tilkynnti settum rannsóknarlögreglustjóra um niðurstöðu sína með bréfi dagsettu 5. sept. 1997. Í stuttu máli komst ríkissaksóknari að þeirri niðurstöðu að ekki væri tilefni til aðgerða af hálfu ákæruvaldsins í málinu.

Framangreint bréf ríkissaksóknara er birt í skýrslunni til Alþingis en rétt er að geta þess að það var einnig birt í heild sinni í fjölmiðlum. Ríkissaksóknari fer í bréfi sínu lið fyrir lið yfir öll þau atriði sem kynnu að leiða til saksóknar og kemst að þeirri niðurstöðu í öllum tilvikum að ekki sé tilefni til útgáfu ákæru. Ríkissaksóknari vakti athygli á því með bréfi ráðuneytisins, dagsettu 11. september 1997, að í skýrslu setts rannsóknarlögreglustjóra væri að finna umfjöllun um almennt skipulag ávana- og fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík. Gerði hann síðan grein fyrir meginniðurstöðu setts rannsóknarlögreglustjóra varðandi skipulag innan deildarinnar. Taldi ríkissaksóknari fyrir utan verksvið sitt að hafa afskipti af skipulagi og stjórn einstakra lögreglustjóraembætta og vakti í því sambandi athygli á gagnrýni setts rannsóknarlögreglustjóra á skipulagi ávana- og fíkniefnadeildar.

Ráðuneytinu barst einnig bráðabirgðaskýrsla lögreglustjórans í Reykjavík vegna atriða í rannsóknarskýrslu setts rannsóknarlögreglustjóra. Taldi lögreglustjórinn í Reykjavík að skýrsla setts rannsóknarlögreglustjóra gæfi ekki rétta mynd af starfsemi deildarinnar á því tímabili sem var til skoðunar.

Ráðuneytinu hafa einnig borist athugasemdir einstakra starfsmanna lögreglustjóraembættisins í Reykjavík vegna atriða sem fram komu í skýrslunni. Í framhaldi af þeirri gagnrýni óskaði ráðuneytið eftir því við Atla Gíslason, sem settur var til að fara með rannsókn málsins, að hann færi yfir þær skriflegu athugasemdir sem borist höfðu. Skilaði hann greinargerð sinni vegna þeirra atriða með bréfi til ráðuneytisins 23. janúar sl. Felur hann ráðuneytinu að meta með hliðsjón af rannsóknargögnum og athugasemdum hans hvort gagnrýni á skipulag ávana- og fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík á þessum tíma hafi verið réttmæt.

[15:15]

Eins og fram kemur í skýrslu minni til Alþingis vekja þær upplýsingar sem fram koma í skýrslu Atla Gíslasonar, setts rannsóknarlögreglustjóra, upp réttmætar spurningar um það hvort skipulag og starfsemi ávana- og fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík hafi á því tímabili sem rannsóknin náði til verið í samræmi við þær kröfur sem eðlilegt er að gera til slíkrar deildar.

Rétt er að árétta það sem fram kemur í áðurnefndu bréfi ríkissaksóknara, að hann telur að ekki sé um refsiverð brot að ræða í þessum eða öðrum tilvikum. Þá má einnig nefna að ég hef á liðnum árum gert ýmsar athugasemdir við atriði í skipulagi lögreglunnar í Reykjavík sem einnig tengjast heildarskipulagi löggæslu í landinu. Leiddi það m.a. til endurskoðunar á lögreglulögum og í framhaldi af því setningu nýrra lögreglulaga. Róttækar breytingar voru einnig gerðar á skipulagi innan lögreglunnar í Reykjavík, m.a. vegna gildistöku lögreglulaga 1. júlí 1997. Er það mat mitt að þær breytingar sem ráðist hefur verið í hafi leitt til þess að skipulagslega sé stjórn og ábyrgð yfirstjórnar lögreglunnar í Reykjavík nú eðlileg.

Eins og áður sagði óskuðu skýrslubeiðendur eftir því að sérstaklega yrði fjallað um og gerð grein fyrir ákveðnum atriðum. Í fyrsta lagi er óskað eftir upplýsingum um hvað rannsókn setts rannsóknarlögreglustjóra hafi leitt í ljós varðandi stjórnskipulag lögreglunnar í Reykjavík.

Í skýrslu minni er gerð grein fyrir þessum atriðum, m.a. því að skýrsla setts rannsóknarlögreglustjóra gefi til kynna að hann telji skipulag stofnunarinnar ekki hafa uppfyllt þær kröfur sem gerðar voru til hennar. Árétta verður hins vegar skýrt og greinilega að niðurstaða ríkissaksóknara er sú, varðandi annmarka á skipulagi, að ekki sé um refsiverð brot að ræða hjá núverandi eða fyrrverandi starfsmönnum lögreglu hvað þetta atriði eða önnur varðar. Að öðru leyti vísa ég til þess sem ég hef þegar rakið um breytingar á skipulagi lögreglunnar.

Í öðru lagi er spurt um hvort rannsóknin hafi leitt í ljós að lögregla hafi ekki sinnt ábendingum um starfsemi meints fíkniefnasala og hvort rannsóknir á hendur honum hafi verið jafnítarlegar og efni stóðu til.

Í skýrslunni er gerð grein fyrir því að ríkissaksóknari hafi komist að þeirri niðurstöðu að rannsóknin hafi hvorki leitt í ljós að lögregla hafi í ákveðnum tilvikum ekki sinnt ábendingum um starfsemi meints fíkniefnasala né að rannsókn hafi í ákveðnum tilvikum ekki verið jafnítarleg og efni stóðu til.

Í þriðja lagi er óskað eftir upplýsingum um undanfara þess að Franklín Steiner var veitt reynslulausn, hver hafi tekið þá ákvörðun og hvaða meðferð málið hafi fengið í stjórnsýslunni. Jafnframt var óskað eftir upplýsingum um þær reglur sem um þessi mál giltu á þessum tíma og hvort afgreiðslan hafi verið í samræmi við þær.

Í skýrslu minni til Alþingis er ítarleg grein gerð fyrir þessu atriði og kemur þar fram að afgreiðsla stjórnvalda á þessu erindi var að öllu leyti í samræmi við reglur og venjur sem þá giltu. Upplýsingar um afgreiðslu reynslulausnarbeiðna fanga á árunum 1990 og 1991, sem afplánuðu dóma vegna fíkniefnabrota, sýna að afgreiðsla fullnustumatsnefndar og Fangelsismálastofnunar af þessu tagi var algeng. Á þessum tveimur árum fengu 25 fangar sem afplánauðu dóma vegna fíkniefnabrota reynslulausn. Sautján þeirra fengu reynslulausn eftir að hafa afplánað helming refsitíma og átta eftir að hafa afplánað 2/3 tímans. Meðal þeirra sautján sem fengu reynslulausn eftir að hafa afplánað helming refsitíma var Franklín Steiner, en hann fékk reynslulausn á 435 daga, eftirstöðvum 29 mánaða fangelsisvistar. Af þessum sautján sem fengu reynslulausn á helming afplánaunar voru fjórir sem höfðu tveggja ára fangelsisdóm eða lengri.

Þessar tölur sýna svo ekki verður um villst að afgreiðsla fullnustumatsnefndar og Fangelsismálastofnunar á reynslubeiðni Franklíns K. Steiners virðist hafa verið í samræmi við afgreiðslu mikils meiri hluta beiðna um reynslulausn á þessum tíma. En rétt er að taka fram að hvorki ráðherra né ráðuneytið tóku efnislega afstöðu til þessa erindis.

Sú meðferð mála varðandi reynslulausn sem í gildi var á þessum tíma heyrir nú sögunni til. Með reglugerð nr. 29/1993, um fullnustu refsidóma var ákveðið að fanga skyldi að jafnaði ekki veitt reynslulausn þegar liðinn væri helmingur refsitímans ef hann afplánaði refsingu fyrir m.a. meiri háttar fíkniefnabrot eða hann hafi áður afplánað óskilorðsbundar refsingar, tvívegis eða oftar, nema sérstakar ástæður mæli með því, eins og nánar er vikið að í umræddri reglugerð. Umfjöllun fullnustumatsnefndar um reynslulausnarbeiðni gagnvart Fangelsismálastofnun var afnumin en þess í stað mælt fyrir um að kæra mætti ákvarðanir Fangelsismálastofnunar til ráðuneytis. Á því stigi gefur náðunarnefnd nú umsögn.

Í fjórða lagi er spurt um rökstuðning ríkissaksóknara fyrir því að ákæra ekki að lokinni rannsókn málsins. Vísa ég í þeim efnum til bréfa ríkissaknsóknara frá 5. sept. og 5. nóv. 1997 sem er að finna í skýrslunni.

Í fimmta lagi er óskað eftir upplýsingum um hvort lögregla hafi farið fram á það við ríkissaksóknara eða dómsmrh. að settar yrðu reglur varðandi óhefðbundnar rannsóknaraðferðir. Er því svarað í skýrslunni, en þess má geta að ríkislögreglustjóri lagði til í bréfi til ráðneytisins í lok síðasta árs að sett yrði á laggirnar nefnd sem móta skyldi slíkar reglur. Slík nefnd hefur nú verið skipuð en hlutverk hennar er að fjalla um óhefðbundnar rannsóknaraðferðir lögreglunnar, m.a. að kanna rannsóknir og rannsóknaraðferðir lögreglu í baráttu gegn afbrotum, sérstaklega í nýjum og nýlegum tegundum afbrota, og fara yfir heimildir lögreglunnar til rannsókna og til að beita óhefðbundnum rannsóknaraðferðum. Þá er nefndinni ætlað að gera tillögur um reglur um óhefðbundnar rannsóknaraðferðir og lagabreytingar sem kunna að þykja nauðsynlegar til að lögregla geti á fullnægjandi hátt tekist á við nýjustu afbrotaaðferðir.

Í sjötta lagi er óskað eftir upplýsingum um hvort ég hafi á einhvern hátt brugðist við skýrslu setts rannsóknarlögreglustjóra.

Í skýrslu minni til Alþingis geri ég grein fyrir því að skýrslu setts rannsóknarlögreglustjóra var beint til ríkissaksóknara í samræmi við lög um meðferð opinberra mála. Að mínu mati er ekki ástæða til að bregðast sérstaklega við þeim upplýsingum sem fram koma í skýrslunni um skipulag og starfshætti ávana- og fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík. Að frumkvæði dómsmrn. höfðu umtalsverðar breytingar þegar verið gerðar á skipulagi, ábyrgð og stjórnun innan lögreglunnar í Reykjavík. Og ég vil ítreka að mat mitt er að skipulagslega sé stjórnun og ábyrgð yfirstjórnar lögreglunnar í Reykjavík nú eðlileg.

Í sjöunda lagi er óskað eftir upplýsingum um hvers vegna ekki var skipaður sérstakur saksóknari til að fara með mál þetta. Jafnframt er óskað eftir upplýsingum um hvort ég hyggist nýta mér heimild í 26. gr. laga um meðferð opinberra mála.

Ítarlegt svar við þessum spurningum er að finna í skýrslunni. Kemur þar m.a. fram að það er ekki hlutverk ráðherra að meta hvort ríkissaksóknari sé vanhæfur til meðferðar tiltekins máls. Jafnframt er þar upplýst að ég mun ekki óska eftir skýrslu frá ríkissaksóknara vegna málsins fyrir þá sök að sú greinargerð liggur nú þegar fyrir. Það eru heldur ekki forsendur til að leggja tillögu fyrir forseta Íslands samkvæmt 26. gr. laga um meðferð opinberra mála þess efnis að ákvörðun ríkissaksóknara verði felld úr gildi.

Í áttunda og síðasta lagi spyrja skýrslubeiðendur um hvort skýrsla setts rannsóknarlögreglustjóra greini frá rannsóknum sem ekki fengu eðlilega framhaldsmeðferð.

Í skýrslu sett rannsóknarlögreglustjóra er gerð grein fyrir þeim tveimur málum sem ekki fengu eðlilega framhaldsmeðferð eins og rakið er í skýrslunni. Fram kemur að ríkissaksóknari taldi ekki ástæðu til að gefa út ákæru vegna þeirra mála og er sú niðurstaða rökstudd í bréfi ríkissaksóknara, dagsettu 5. september 1997. Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur sjálfur tekið til rannsóknar hvers vegna þau tvö mál sem um ræðir fengu ekki eðlilega framhaldsmeðferð, en ekkert hefur komið fram sem skýrt gæti það með viðhlítandi hætti.

Ég hef í stuttu máli gert grein fyrir skýrslu minni til Alþingis um rannsókn á störfum lögreglunnar í Reykjavík. Niðurstaða ríkissaksóknara í máli þessu var ótvíræð. Ekkert gaf tilefni til útgáfu ákæru á hendur lögreglumönnum eða öðrum fyrir brot í opinberu starfi eða önnur lögbrot. Sú niðurstaða er mikilsverð í ljósi þeirrar miklu umræðu sem verið hefur um þetta mál.

Skýrsla setts rannsóknarlögreglustjóra leiddi í ljós ýmsa gagnrýnisverða þætti varðandi skipulag lögreglunnar í Reykjavík á því tímabili sem rannsóknin tók til. Ég vil hins vegar ítreka að umtalsverðar breytingar hafa orðið til bóta á skipulagi lögreglunnar í Reykjavík. Við þetta má bæta að í bréfi Atla Gíslasonar, setts rannsóknarlögreglustjóra, til ráðuneytisins frá 23. janúar sl. sem ritað var í tilefni af athugasemdum við atriði í rannsóknarskýrslu hans, segir settur rannsóknarlögreglustjóri að rannsóknin hafi beinst að skipulagi og starfsháttum ávana- og fíkniefnadeildar og yfirstjórn hennar frá ársbyrjun 1988 til vors 1997. Síðan segir orðrétt:

,,Skipulag og yfirstjórn lögreglunnar í Reykjavík hefur síðan, að frumkvæði dómsmrn., tekið gagngerum breytingum og margvíslegar úrbætur séð dagsins ljós með nýjum lögreglulögum, nr. 90/1996. Rannsóknarskýrslan varðar þannig fortíðarvandamál sem tekið hefur verið á. Vil ég ljúka þessari umfjöllun með því að fagna þessum skipulagsbreytingum og úrbótum.``

Kjarni málsins kemur fram í þessum orðum í bréfi Atla Gíslasonar, setts rannsóknarlögreglustjóra. Það var mikilvægt að ráðast í þá rannsókn sem hér hefur orðið tilefni umræðu, ekki síst til að fá fram sannleikann í máli þessu og hreinsa lögreglu af ýmiss konar áburði um ólögmæta háttsemi við rannsókn sakamála. Dómsmrn. og settur rannsóknarlögreglustjóri eru sammála um að úrbætur þær og skipulagsbreytingar sem ráðist hefur verið í að undanförnu hafa gert það að verkum að starfsemi lögreglunnar í Reykjavík hafi tekið stakkaskiptum hvað þau atriði varðar sem gagnrýnin að skipulaginu beindist helst að.