Rannsókn á störfum fíkniefnadeildar lögreglunnar

Mánudaginn 02. febrúar 1998, kl. 15:26:15 (3268)

1998-02-02 15:26:15# 122. lþ. 56.3 fundur 92. mál: #A rannsókn á störfum fíkniefnadeildar lögreglunnar# beiðni um skýrslu frá dómsmrh., LB
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[15:26]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég tel, áður en lengra er haldið í umræðu um skýrslu dómsmálaráðherra um störf fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík, að nauðsynlegt sé að ræða sérstaklega hvernig þetta mál birtist á hinu háa Alþingi og á hvaða forsendum alþingismönnum býðst að ræða það.

Í skýrslubeiðni þingflokks jafnaðarmanna var þess farið á leit við hæstv. dómsmrh. að hann flytti Alþingi sjálfstæða skýrslu um rannsókn sem fram fór í kjölfar umræðu á Alþingi um ásakanir á hendur lögreglu þess efnis að meintur fíkniefnasali starfaði í skjóli hennar, en Atli Gíslason hæstaréttarlögmaður var settur sérstakur rannsóknarlögreglustjóri til þess að framkvæma þessa rannsókn og skilaði hann skýrslu um rannsóknina ásamt gögnum þann 11. júní sl. Í beiðninni var þess jafnframt farið á leit við ráðherrann að hann skilaði Alþingi ítarlegri greinargerð um önnur atriði sem þar voru sérstaklega tilgreind, m.a. um afskipti og aðkomu dómsmrn. að þeirri ákvörðun að veita umræddum aðila reynslulausn á helming af afplánun fangelsisvistar í andstöðu við gildandi starfsreglur.

Það er mín skoðun að þar sem starfsemi lögreglunnar í Reykjavík var til rannsóknar verði að telja afar óeðlilegt að dómsmrh., sem fer með yfirstjórn lögreglumála í landinu, hafi sjálfdæmi um það hvaða upplýsingar og rannsóknir eru birtar á Alþingi, því sem yfirmaður lögreglu í landinu hljóta embættisfærslur hans einnig að koma til skoðunar við rannsókn sem þessa. Það skýtur að mínu viti skökku við að Alþingi Íslendinga sem hefur m.a. því hlutverki að gegna að veita stjórnvöldum aðhald og eftirlit, þurfi að þola að dómsmrh. skammti því upplýsingar um rannsóknina og alþingismenn verði að ræða málið á þeim forsendum.

Ég hefði talið mun eðlilegra að sérstök nefnd innan þingsins hefði farið ofan í saumana á þessari rannsókn og það er mín skoðun að þessi staðreynd sé enn ein sönnun þess að staða Alþinis gagnvart framkvæmdarvaldinu og ráðherrum sé mjög veik þegar kemur að því að Alþingi sinni sínu aðhalds- og eftirlitshlutverki.

Í skýrslu hæstv. ráðherra, ef skýrslu skyldi kalla því meginefni hennar er afrit eða útdráttur úr bréfum sem embættismenn hafa ritað, kemur m.a. fram sú skoðun að ekki sé ástæða til þess að birta í heild skýrslu setts rannsóknarlögreglustjóra um sína rannsókn og skipti engu þó alþingismenn eigi í hlut. Ég er ósammála þessari niðurstöðu ráðherra og tel að hann eigi að birta umrædda skýrslu, einkum þar sem embættisfærsla hans sjálfs sem yfirmanns lögreglu kemur að sjálfsögðu óbeint til skoðunar við þessa rannsókn. Það má halda því fram að hann sé vanhæfur til þess að taka ákvörðun um að birta hana ekki.

Jónatan Þórmundsson, prófessor í refsirétti við Háskóla Íslands, hefur sjálfur lýst því yfir í viðtali við Morgunblaðið að hann telji að birta eigi skýrslu setts rannsóknarlögreglustjóra, Atla Gíslasonar, og í sama streng hefur settur rannsóknarlögreglustjóri tekið.

Virðulegi forseti. Tilefni þess að ráðist var í þessa rannsókn voru ásakanir um að tiltekinn fíkniefnasali nyti sérkjara við starfsemi sína hjá fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík. Af þeim takmörkuðu upplýsingum sem fram koma í skýrslu hæstv. dómsmrh. er ljóst að umræddur fíkniefnasali hefur verið í einhvers konar upplýsinga- og/eða trúnaðarsambandi við fíkniefnalögregluna í Reykjavík á því níu ára tímabili sem rannsókn setts rannsóknarlögreglustjóra tekur yfir. Það vekur því sérstaka eftirtekt að lögreglustjórinn í Reykjavík virðist ekki hafa haft neina vitneskju um þetta samband eða hvers eðlis það hafi verið, enda kemur fram í skýrslunni hörð gagnrýni á skipulag lögreglunnar í Reykjavík. Í skýrslunni segir m.a. með leyfi forseta:

[15:30]

,,... að skipulagi lögreglunnar í Reykjavík gagnvart ávana- og fíkniefnadeild, yfirstjórn og starfsháttum deildarinnar sé um margt ábótavant. Umsjón og eftirlit með störfum deildarinnar sé ófullnægjandi. Lögreglufulltrúar deildarinnar, deildarlögfræðingar, aðstoðaryfirlögregluþjónar og yfirlögregluþjónar hafi ekki fylgt gildandi erindisbréfum og starfslýsingum í veigamiklum atriðum. Lögreglustjóri virðist ekki hafa haft vitneskju eða yfirsýn yfir stöðu mála og ekki beitt sér fyrir nauð synlegum úrbótum.``

Hér er á ferðinni mjög harkaleg gagnrýni á störf yfirmanna lögreglu og því nauðsynlegt að fá skýr svör við því frá hæstv. dómsmrh. hvernig hann hyggst bregðast við þessari gagnrýni og jafnframt hvort hann telji að gagnrýnin eigi við rök að styðjast.

Í skýrslunni kemur fram að af ferilsskýrslu hins meinta fíkniefnasala hjá lögreglunni í Reykjavík megi ráða að margvíslegar upplýsingar um umfangsmikil umsvif hans í fíkniefnaheiminum sem fíkniefnasala og fíkniefnaneytanda hafi legið fyrir á því tímabili sem rannsóknin tekur til, þ.e. frá ársbyrjun 1988 til 11. júní 1997. Þrátt fyrir það hafi mál hans lítt eða ekki verið rannsökuð, a.m.k. ekki til hlítar.

Tvö dæmi eru um rannsökuð mál frá árinu 1988 og 1992 sem hafa ekki hlotið eðlilega framhaldsmeðferð. Þar er átt við svokölluð ,,Furugrundar-`` og ,,Tunguvegsmál``. Hið fyrrnefnda, ,,Furugrundarmálið``, lýtur að því að hinn meinti fíkniefnasali hafi viðurkennt að hafa átt 134 g af hassi og 4 g af amfetamíni sem fundust við húsleit hjá honum í febrúarmánuði 1988. Málið hlaut ekki framhaldsmeðferð og ef marka má skýrslu hæstv. ráðherra virðist að gögn málsins hafi á einhvern óskiljanlegan hátt horfið á meðan á rannsókninni stóð. Það var ekki fyrr en við rannsókn setts rannsóknarlögreglustjóra níu árum eftir upphaf þess að gögn um málið komu í leitirnar en þá finnst mappa með afritum af framburðarskýrslum, úrskurðum, upplýsingaskýrslum og fleiru. En skjöl virðist vanta í númeraröð gagnanna. Frumgögn málsins hafa ekki fundist þrátt fyrir ítarlega leit og athugun leiddi í ljós að málið var aldrei sent til framhaldsmeðferðar. Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur lýst því yfir að ítarleg rannsókn sé í gangi á embætti hans á því hvernig þessi mál gætu hafa horfið. Væri mjög fróðlegt ef ráðherra gæti upplýst þingheim við þessa umræðu hvernig sú vinna gengur.

Það sem vekur sérstaka eftirtekt er ekki aðeins að mál skuli hverfa á einhvern óútskýrðan og dularfullan hátt heldur einnig hitt að á sama tíma voru til meðferðar í dómskerfinu tvö önnur mál á hendur hinum sama meinta fíkniefnasala. En dómar í þeim málum féllu annars vegar 29. maí 1989 með dómi sakadóms í ávana- og fíkniefnamálum og hins vegar 8. júní sama ár í Hæstarétti. Dómarnir kváðu á um 29 mánaða fangelsisvist samanlagt. Ekki er ólíklegt ef hið svokallaða ,,Furugrundarmál`` hefði verið afgreitt á svipuðum tíma með hinum málunum, eins og eðlilegt hefði verið ef málið hefði ekki týnst í meðförum lögreglu, að fangelsisdómarnir hefðu þá kveðið á um 15 til 20 mánaða lengri fangelsisvist en raun ber vitni. Verður því að segja alveg eins og er að mjög heppilegt var fyrir sakborning í þessu tilviki að umrætt mál skyldi hverfa eða týnast við þessar aðstæður. Varla hefði verið hægt að tímasetja tapið betur.

Hitt málið, svokallað ,,Tunguvegsmál``, sem virðist einnig hafa horfið sporlaust með dularfullum hætti úr vörslu lögreglu, laut að því að þann 15. apríl 1992 var meintur fíkniefnasali handtekinn af lögreglumönnum úr almennri deild lögreglunnar. Málið finnst ekki í kæruskrá ávana- og fíkniefnadeildar og verður ekki séð hvort eða hvaða framhaldsmeðferð það hafi fengið. Hvorki finnast í málinu afrit né frumgögn önnur en húsleitarúrskurður og ljósrit efnaskrár en hún sýnir að málinu tengjast u.þ.b. 0,6 g af kannabisefni og u.þ.b. 2,2 g af amfetamíni og er efnaskráin dagsett 21. apríl 1992. Annað finnst ekki í skrám lögreglunnar um málið.

Því er full ástæða til að taka undir með leiðarahöfundi Morgunblaðsins frá 3. sept. sl. og gera þær hugleiðingar að sínum þegar hann spyr, með leyfi forseta:

,,Hvað varð um frumrit rannsóknargagnanna? Á að láta staðar numið við svo búið? Rannsaka ber hvað varð um gögnin og hvers vegna þau skiluðu sér ekki til þeirra sem áttu að fjalla um málið. Það er ekki viðunandi að alvarlegt fíkniefnamál gufi upp innan kerfisins eins og ekkert sé. Það hefur verið efnt til rannsóknar af minna tilefni.``

Sú staðreynd að frumrit rannsóknargagna í heilu málunum, sem varða öll sama einstaklinginn, skuli hverfa í hverju málinu á fætur öðru vekur upp margar spurningar. Meðal annars vekur það upp efasemdir um að stjórn og skipulag deildarinnar hafi verið eins og nauðsynlegt er og æskilegt verður að telja. Þá var þess sérstaklega farið á leit í skýrslubeiðni til hæstv. dómsmrh. að hann upplýsti hvers vegna dæmdur fíkniefnasali fékk reynslulausn eftir helming afplánunar --- og ég ítreka það þrátt fyrir ræðu hæstv. dómsmrh. áðan --- í andstöðu við starfsreglur fullnustunefndar sem hún vann eftir á þessum tíma. Eins og ég hef áður rakið fékk hinn dæmdi fíkniefnasali tvo dóma á árinu 1989 sem kváðu samtals á um 29 mánaða fangelsi. Hann hóf afplánun á dómunum 5. maí 1990 en var síðan veitt reynslulausn 8. júní 1991 eftir að hafa afplánað rúmlega 13 mánuði af þeim 29 sem hann hafði verið dæmdur í. Í umræddri skýrslubeiðni var þess farið á leit við hæstv. dómsmrh. að hann greindi frá því hver undanfari hafi verið að því að hinum dæmda fíkniefnasala var veitt reynslulausn eftir tæplega helming refsitímans. Jafnframt var þess farið á leit við hæstv. dómsmrh. að hann upplýsti um hvaða almennar reglur giltu um veitingu reynslulausnar á þeim tíma og eftir hvaða sjónarmiðum hafi verið farið þegar reynslulausn var veitt. Í 2. mgr. 40. gr. almennra hegningarlaga segir að veita megi reynslulausn á helming refsitíma ef sérstaklega stendur á.

Í skýrslunni kemur fram að fullnustumatsnefnd fjallaði fyrst um beiðni fangans um reynslulausn 1. mars 1991. Komst hún þá að þeirri niðurstöðu að engin rök mæltu með því að við erindinu yrði orðið. Fangelsismálastofnun hafnaði síðan í framhaldi af því erindi fangans með bréfi dagsettu 4. mars sama ár. Hins vegar kemur ekki fram í skýrslu dómsmrh. að við afgreiðslu á umsögn fullnustumatsnefndar sagði einn nefndarmanna sig frá málinu og tók því ekki þátt í afgreiðslu þess þá. Með bréfi dagsettu 9. apríl 1991 kærir fanginn þá ákvörðun Fangelsismálastofnunar til dómsmrn. til nýrrar ákvörðunar. Þar er verið að kæra ákvörðun lægra setts stjórnvalds til æðra setts stjórnvalds. Ráðuneytið óskaði eftir nýrri umsögn fullnustumatsnefndar með bréfi dags. 28. júní 1991. Með bréfi dags. 4. júlí 1991 er kæranda tilkynnt um að fullnustumatsnefnd hafi að nýju fjallað um málið á fundi sínum 28. júní eða sama dag og bréf ráðuneytisins var sent og þar hafi verið lagt til að beiðnin yrði samþykkt. Því hafi Fangelsismálastofnun ákveðið að veita honum reynslulausn eftir að hafa afplánað helming refsivistar eða þar um bil.

Í skýrslu dómsmrh. kemur enn fremur fram það mat hans að síðari umsögn nefndarinnar hafi hvorki verið andstæð lögum né venjubundinni framkvæmd hjá nefndinni á þessum tíma.

Það sem vekur í fyrsta lagi sérstaka eftirtekt við afgreiðslu málsins er að dómþoli kærir ákvörðun Fangelsismálastofnunar til dómsmrn. en í stað þess að ráðuneytið afgreiði kæruna eins og eðlilegt hefði mátt telja tekur Fangelsismálastofnun nýja ákvörðun í málinu. Í skýrslunni er ekki að finna neinar viðhlítandi skýringar á þeirri málsmeðferð.

Í öðru lagi er ekki að finna í skýrslunni neinn rökstuðning fyrir því að Fangelsismálastofnun skyldi breyta fyrri ákvörðun sinni sem hún hafði tekið um fjórum mánuðum áður og þá með þeim rökstuðningi að engin rök stæðu til þess að veita umræddum fanga reynslulausn eftir að hafa afplánað helming refsivistar. Þá kemur heldur ekki fram í skýrslunni að nefndarmaður í fullnustumatsnefnd, sem sagði sig frá málinu þegar það var fyrst afgreitt frá nefndinni, sagði sig ekki frá málinu þegar það kom að nýju til afgreiðslu í nefndinni og tók þátt í síðari afgreiðslu málsins.

Það sem þó vekur kannski mesta athygli við þessa undarlegu afgreiðslu er sú fullyrðing sem fram kemur í skýrslunni að afgreiðsla málsins væri í engu frábrugðin venjubundinni framkvæmd hjá nefndinni á þessum tíma.

Í fyrsta lagi er alveg ljóst að meðferð málsins er í engu samræmi við eðlilega afgreiðslu á kæru til æðra stjórnvalds eins og ég hef rakið. Auk þess eru sem samkvæmt mínum upplýsingum engin fordæmi til um að einstaklingur sem hefur hlotið jafnlangan fangelsisdóm og í þessu tilviki sem auk þess átti að baki jafnlangan afbrotaferil fái reynslulausn á helming refsivistar en hann hafði hlotið níu dóma samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef frá árinu 1972 til ársins 1989.

Ég fullyrði því að síðari afgreiðsla fullnustumatsnefndar á umsókn um reynslulausn hafi ekki átt sér neitt fordæmi og því hafi afgreiðsla nefndarinnar ekki verið í neinu samræmi við venjubundnar afgreiðslur á þessum tíma þrátt fyrir yfirlýsingar ráðherra um annað. Hafi ég rangt fyrir mér skora ég á hæstv. dómsmrh. að benda á önnur fordæmi.

Virðulegi forseti. Sú rannsókn sem settur rannsóknarlögreglustjóri var fenginn til að vinna að laut að því að varpa ljósi á þær ásakanir sem bornar höfðu verið á hendur lögreglu þess efnis að meintur fíkniefnasali hafi fengið sérstaka meðferð af hálfu fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík. Þegar sá útdráttur er skoðaður sem hæstv. dómsmrh. birtir á Alþingi úr rannsókn setts rannsóknarlögreglustjóra er mjög erfitt að komast að annarri niðurstöðu en að margt bendi til að svo hafi verið. Í fyrsta lagi segir settur rannsóknarlögreglustjóri að af ferilsskýrslu, sem liggi fyrir um hinn meinta fíkniefnasala hjá lögreglunni í Reykjavík, megi sjá að fyrir hafi legið margvíslegar upplýsingar um mikil umsvif hans sem fíkniefnasala og fíkniefnaneytanda það tímabil sem rannsóknin taki til, þ.e. frá ársbyrjun 1988 fram á mitt ár 1997. Þrátt fyrir það hafi mál hans lítt verið rannsökuð eða ekki til hlítar.

Í öðru lagi leiðir rannsóknin í ljós að tvö mál á hendur hinum meinta fíkniefnasala hverfa eða gufa upp við rannsókn og hvorki finnst tangur né tetur af rannsóknargögnum þrátt fyrir ítarlega leit. Einkum verður að telja merkilegt að gögn í svokölluðu ,,Furugrundarmáli``, sem er nokkuð stórt mál á íslenskan mælikvarða, skuli hverfa á jafnheppilegum tíma fyrir viðkomandi einstakling og raun ber vitni.

Í þriðja lagi er varla hægt að skýra það öðruvísi en svo að þegar einstaklingi sem hefur hlotið jafnmarga dóma og raun ber vitni, er veitt reynslulausn á helming afplánunar, hljóti að teljast að mjög sérstök og ívilnandi sjónarmið hafi ráðið för við þá afgreiðslu, einkanlega þegar það er haft í huga að engin fordæmi eru fyrir slíkri afgreiðslu samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað mér. Ég ítreka enn og aftur við dómsmrh. að hann leiðrétti það ef það reynist rangt hjá mér að ekki séu fordæmi fyrir því að einstaklingur með jafnlangan afbrotaferil og jafnmarga dóma á bakinu hafi fengið reynslulausn á helmings refsitíma og jafnlangan fangelsisdóm og í þessu tilviki.

Það er því niðurstaða mín að sú sérstaka meðferð sem umræddur einstaklingur virðist hafa fengið hjá fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík verði ekki skýrð svo að tilviljun ein hafi ráðið að svona hafi farið. Það þarf veigameiri rök en sett hafa verið fram af hálfu hæstv. dómsmrh. til að sannfæra mig um að meðferð mála hafi verið eins og best verður á kosið og eðlilegt má teljast.

[15:45]

Það er því hlutverk hæstv. dómsmrh. að gefa Alþingi ítarlegri skýringar svo komast megi til botns í þeim ásökunum sem bornar hafa verið á lögregluna um að umræddur fíkniefnasali hafi starfað í skjóli hennar.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum í fyrstu ræðu minni um þetta mál ítreka þá kröfu til hæstv. dómsmrh. að hann birti umrædda skýrslu. Það er ekki ásættanlegt fyrir Alþingi að fjalla um rannsókn sem þegar hefur farið fram á forsendum sem hæstv. dómsmrh. býr til og leggur fyrir Alþingi. Það er Alþingi ekki sæmandi að sætta sig við slík vinnubrögð.