Rannsókn á störfum fíkniefnadeildar lögreglunnar

Mánudaginn 02. febrúar 1998, kl. 15:45:54 (3269)

1998-02-02 15:45:54# 122. lþ. 56.3 fundur 92. mál: #A rannsókn á störfum fíkniefnadeildar lögreglunnar# beiðni um skýrslu frá dómsmrh., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[15:45]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Suðurl. taldi í ræðu sinni að óeðlilegt væri að ráðherra hefði sjálfdæmi um að ákveða hvaða upplýsingar væru birtar í þessu efni. Hér gætir nokkurs misskilnings og vissulega væri staðan allt önnur ef ráðherrann hefði sjálfdæmi um þetta. Ég hygg að flestum þingmönnum sé kunnugt um að ríkissaksóknari er sjálfstæður og óháður embættismaður og lýtur ekki boðvaldi ráðherra. Það er eitt af grundvallaratriðunum í réttaröryggi í landinu. Skýrsla setts rannsóknarlögreglustjóra, greinargerð hans um rannsókn málsins, er afhent ríkissaksóknara og það er ríkissaksóknari einn sem getur tekið ákvarðanir um það hvað birt er af rannsóknargögnum og ráðherra er með öllu óheimilt að hlutast til um hvaða rannsóknargögn eru birt. Með því móti væri hann að brjóta niður það lögbundna sjálfstæði sem ríkissaksóknari hefur og þá réttarvernd sem borgararnir hafa af því að embættið sé sjálfstætt. Það er með öðrum orðum ekki sú staða uppi í málinu að það sé háð pólitísku mati hvaða rannsóknargögn eru birt eða ekki. Þess vegna er á misskilningi byggt hjá hv. þm. að halda því fram að ráðherra hafi sjálfdæmi um hvaða upplýsingar eru birtar. Sú aðstaða er ekki fyrir hendi í þessu máli.