Rannsókn á störfum fíkniefnadeildar lögreglunnar

Mánudaginn 02. febrúar 1998, kl. 17:12:18 (3285)

1998-02-02 17:12:18# 122. lþ. 56.3 fundur 92. mál: #A rannsókn á störfum fíkniefnadeildar lögreglunnar# beiðni um skýrslu frá dómsmrh., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[17:12]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst hæstv. ráðherra ekki svara því hvort hann teldi eðlilegt að Alþingi fengi skýrsluna og hvort hann teldi eðlilegt, ef lög bönnuðu það, að lögum yrði þá breytt til þess að Alþingi hefði aðgang að slíkum skýrslum. Mér finnst reyndar ráðherrann skýla sér of mikið á bak við ákæruvaldið og lögin um ákæruvaldið í því efni vegna þess að í þeim lögum stendur að dómsmrh. hafi eftirlit með framkvæmd ákæruvalds og geti krafið ríkissaksóknara skýrslna um einstök mál.

Ráðherrann svaraði fyrirspurn frá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur varðandi það að allsshn. mundi fjalla um þetta mál. Ég tel það eðlilegt miðað við þessa umræðu og stöðu málsins og mun þegar í fyrramálið á fundi allshn. óska eftir því með vísan til 26. gr. þingskapa sem kveður á um að þingnefnd geti haft frumkvæði að því að taka upp mál og gefið síðan Alþingi skýrslu um það. Ég mun láta reyna á þetta ákvæði strax í fyrramálið í allshn. og láta reyna á það hvort allshn. geti fengið þá skýrslu sem svo margsinnis hefur verið kallað eftir hér.

En ég vil líka vitna til þess, herra forseti, að hæstv. ráðherra segir að það sé óafsakanlegt að tvö fíkniefnamál hafi týnst í kerfinu. Engu að síður segir ráðherrann í þessari skýrslu að hann telji ekki ástæðu til þess að ráðuneytið nýti sér 26. gr. laga um meðferð opinberra mála sem kveður á um að hægt sé að fella ákvörðun ríkissaksóknara úr gildi og setja sérstakan saksóknara til að fara með málið þegar ráðherrann á sama tíma lýsir því yfir að óafsakanlegt sé að tvö mál hafi týnst í kerfinu og þurfi að skoða málið frekar. Fyrst ríkissaksóknari taldi ekki ástæðu til þess að aðhafast frekar í málinu þá átti ráðherrann auðvitað að nýta sér 26. gr. laga um meðferð opinberra mála, fella ákvörðun ríkissaksóknara úr gildi og setja sérstakan saksóknara til að fara með þetta mál.

Herra forseti. Allt þetta mál er þannig vaxið að nú mun ég láta reyna á hvernig ákvæði 26. gr. þingskapa virka og hvort sú nefnd hafi það vald sem þarf til þess að fara ofan í þetta mál og krefja aðila um umbeðna skýrslu og gögn og gefa síðan Alþingi skýrslu um málið.