Rannsókn á störfum fíkniefnadeildar lögreglunnar

Mánudaginn 02. febrúar 1998, kl. 17:14:43 (3286)

1998-02-02 17:14:43# 122. lþ. 56.3 fundur 92. mál: #A rannsókn á störfum fíkniefnadeildar lögreglunnar# beiðni um skýrslu frá dómsmrh., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[17:14]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi það atriði sem hv. þm. vék að, þ.e. að ráðherra hafi heimildir til þess að fella ávarðanir ríkissaksóknara úr gildi, þá eru vissulega heimildir til þess. En ég vil vekja athygli hv. þm. á því að þessi heimild lýtur að niðurstöðu saksóknara um hvort tilefni sé til ákæru í málinu. Ekkert hefur komið fram í þessu máli sem réttlætir að ráðherra breyti þeirri ákvörðun enda þarf annað tveggja að liggja í augum uppi, að hún hafi verið ólögmæt eða fullkomlega fjarstæðukennd. Ella hefur ráðherra ekki heimild til þess að beita þessu ákvæði og ég tel að sú heimild hafi einfaldlega ekki legið fyrir í þessu efni.

Varðandi afstöðu mína til þess hvort heimila eigi pólitískum stjórnvöldum, Alþingi eða framkvæmdarvaldinu, að taka ákvarðanir um það hvort rannsóknargögn séu birt opinberlega þá er ég ekki þeirrar skoðunar að slík lög eigi að vera og tel að sú löggjöf sem Alþingi hefur sett um sjálfstæðan ríkissaksóknara óháðan pólitísku valdi sé skynsamleg og betur fallin til réttaröryggis.

Um þau sjónarmið sem hv. þm. reifaði hér um almenna rannsóknarskyldu eða möguleika þingnefnda til þess að taka upp mál og rannsaka, þá á það við um stjórnsýsluverkefni en á ekkert skylt við opinberar sakarrannsóknir eða rannsóknir á því hvort menn hafi gerst brotlegir við refsilög eða ekki þannig að þar er um algjörlega óskylda hluti að ræða sem koma þessari sakarrannsókn ekkert við.