Rannsókn á störfum fíkniefnadeildar lögreglunnar

Mánudaginn 02. febrúar 1998, kl. 17:26:07 (3293)

1998-02-02 17:26:07# 122. lþ. 56.3 fundur 92. mál: #A rannsókn á störfum fíkniefnadeildar lögreglunnar# beiðni um skýrslu frá dómsmrh., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[17:26]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir að fara hefði mátt ítarlegar yfir skýrsluna eða að óska eftir því að fulltrúi ráðuneytisins sæti fyrir svörum hjá allshn. og þá í fullum trúnaði til þess að fara yfir þau gögn sem liggja að baki skýrslunni. Hins vegar held ég að við þingmenn ættum að fara afar varlega í að krefjast þess að rannsóknargögn séu opin og okkur birtanleg þegar um er að ræða að rannsóknin leiðir til þess að kæra er ekki lögð fram. Það er með allt öðrum hætti ef niðurstaðan hefði verið sú að leggja fram kæru. Þá liggja gögnin fyrir opin og hægt er að fylgjast með. Ég held að enginn hafi í sjálfu sér með það að gera að fara yfir rannsóknargögn frá A til Ö þar sem niðurstaða þar til skipaðra embættismanna verður sú að ekki er lögð fram kæra þá er það réttur þess sem varð fyrir yfirheyrslunni að þurfa ekki sem sagt að standa okkur öllum skil á því sem hann sagði.

Mig langar til þess að ítreka spurningu mína til ráðherra vegna þess að það má vera að hann hafi svarað, ég heyrði það þá ekki, að það er ljóst að það tapast í tveimur tilvikum gögn sem tengjast ákveðnum sakamanni. Lögreglustjóri hefur ákveðið að leita að gögnunum og betra er seint en aldrei, hann hefði fyrir löngu átt að setja allt á annan endann til þess að leita að þessum gögnum. Er um það að ræða að dómsmrn. hafi vitneskju um að það hafi gerst í fleiri tilvikum að rannsóknargögn hafi týnst í meðförum lögreglu? Hefur hæstv. dómsmrh. beint þeim spurningum til lögreglustjóraembættisins og ef svo er, hvaða svör hafa fengist?