Staða umferðaröryggismála

Mánudaginn 02. febrúar 1998, kl. 17:31:50 (3298)

1998-02-02 17:31:50# 122. lþ. 56.5 fundur 393. mál: #A staða umferðaröryggismála# skýrsl, dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[17:31]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Í janúar sl. skilaði ég annarri áfangaskýrslu um stöðu umferðaröryggismála til Alþingis. Er það í samræmi við þál. um stefnumótun er varðar aukið umferðaröryggi og framkvæmdaáætlun sem samþykkt var á Alþingi 28. febrúar 1996. Ályktunin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að á næstu sex árum, eða fyrir lok ársins 2000, skuli stefnt að fækkun alvarlegra umferðarslysa um 20% miðað við meðaltal áranna 1982--92. Þessu takmarki verði náð með sameiginlegu átaki ríkis, sveitarfélaga, vátryggingafélaga og áhugahópa um umferðaröryggismál í samvinnu við ökumenn og samtök þeirra. Opinberir aðilar og fyrirtæki sem starfa að umferðaröryggismálum og sveitarfélög með fleiri íbúa en 1.000 skili til dómsmálaráðuneytisins framkvæmdaáætlun eða tillögum er leiði til aukins umferðaröryggis. Dómsmálaráðherra kynni Alþingi í byrjun hvers árs stöðu umferðaröryggismála og hvernig áætluninni miðar í átt að settu marki. Starfs- og framkvæmdaáætlun verði endurskoðuð árlega.``

Eins og fram kemur í skýrslunni hefur mikið starf verið unnið í umferðaröryggismálum á undanförnum árum, ekki síst á liðnu ári, og er árangur af starfinu að skila sér í fækkun umferðarslysa. Í fyrstu áfangaskýrslu sem dreift var á Alþingi í byrjun mars á liðnu ári voru markmiðin skilgreind á nýjan hátt. Nú er miðað við að alvarleg slys, alvarlega slasaðir og látnir í umferðarslysum, verði færri en 200 fyrir árslok 2000. Með þessari markmiðssetningu er einfaldara og nákvæmara að bera saman tölur á milli ára.

Fjölmargir eru þátttakendur í umferðaröryggisstarfinu og er þáttur þeirra allra mikilvægur. Áfram verður lögð áhersla á að samhæfa störf og verkefni aðila til að ná sem bestum árangri. Einnig verða einstök verkefni er tengjast nýbreytni í umferðaröryggismálum styrkt af umferðaryggissjóði Umferðarráðs, Umferðarráði og fleirum eins og undanfarin ár. Lögð verður sérstök áhersla á fá en afmörkuð verkefni eins og á síðasta ári.

Á árinu 1998 verða meginviðfangsefnin þessi: Bílbelti og öryggisbúnaður fyrir börn í bílum, ölvunarakstur, ökuhraði og ungir ökumenn.

Embætti ríkislögreglustjóra tók til starfa í júní 1997. Tilkoma embættisins gerir unnt að samræma enn frekar störf lögregluembætta á sviði umferðarlöggæslu og jafnframt að vinna að sérstökum verkefnum og hafa frumkvæði að nýjungum. Gerðar hafa verið breytingar á umferðarlögum og lögum um meðferð opinberra mála, auk þess sem tillögur um frekari breytingar verða lagðar fram á Alþingi nú á vorþingi. Með þessum breytingum er ætlunin að auðvelda lögreglu meðferð mála vegna umferðarlagabrota og innheimtu sekta, svo og að gera henni kleift að nota löggæslumyndavélar og ný öndunarsýnatæki til að ákveða magn áfengis í blóði ökumanna. Jafnframt á að auka samræmi, skilvirkni og jafnræði hvað varðar refsingar og önnur viðurlög við brotum á umferðarlögum.

Árið 1997 var að mörgu leyti gott hvað umferðaröryggi varðar þótt alltaf megi gera betur. Alvarlegum slysum fækkaði um 19%, úr 254, sem er meðaltal áranna 1991--1996, í 207 árið 1997. Er það nálægt því markmiði sem stefnt er að fyrir lok ársins 2000. Það er markverð þróun því ekki hafa færri slasast alvarlega í umferðinni frá því skipuleg skráning umferðarslysa hófst. Árið 1997 létust 15 í umferðarslysum sem er undir meðaltali áranna 1992--1996, sem er 17, og 12 færri en meðaltal áranna 1980--1990. Þó að um fjölgun banaslysa sé að ræða frá árinu 1996 er breytingin innan tölfræðilegra marka þar sem um svo lágar tölur er að ræða. Tölur um slasaða í umferðinni eru byggðar á skýrslu Umferðarráðs um slys skráð af lögreglu.

Það er svo eftirtektarvert varðandi banaslysin á árinu að tæplega helmingur ökumanna og farþega sem létust voru í bifreið þar sem ekki var notaður öryggisbúnaður, þ.e. bílbelti og barnabílstólar. Er þessi niðurstaða dapurleg því öllum má vera ljóst gildi þess að nota bílbelti, barnabílstóla og annan öryggisbúnað í bifreiðum.

Þjóðhagslegur sparnaður af fækkun slysa á síðastliðnu ári frá meðaltali áranna 1991--1996 liggur á bilinu 300--600 millj. kr. ef notaðar eru forsendur rannsóknar Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands á kostnaði vegna umferðarslysa.

Á árunum 1993--1997 létu 16 lífið í umferðarslysum að meðaltali á ári. Borið saman við önnur Norðurlönd er hér lægst dánartíðni eða 5,9 á hverja 100 þúsund íbúa. Það er vert að geta þess að á Íslandi er nú lægst dánartíðni í umferðinni í heiminum, samkvæmt heimildum PRI, alþjóðasamtaka umferðarráða.

Eins og fram kemur í skýrslunni voru verkefni og aðgerðir fjölmargar á árinu. Allmörg sveitarfélög hafa gert sínar eigin umferðaröryggisáætlanir og haldið umferðaröryggisdaga til að vekja athygli á umferðaröryggismálum í sveitarfélaginu. Vegagerðin vinnur eins og kunnugt er eftir eigin umferðaröryggisáætlun auk þess að vinna að mörgum verkefnum í samvinnu við Umferðarráð, sveitarfélög og lögreglu. Áhersla var lögð á samvinnu aðila sem vinna að umferðaröryggismálum því rannsóknir sýna að einir ná menn takmörkuðum árangri.

Eitt af höfuðmarkmiðum umferðaröryggisáætlunarinnar er að efla viðurlagakerfið vegna umferðarlagabrota með það fyrir augum að gera það skilvirkara og einfaldara ásamt því að taka upp nýjungar í réttarvörslu vegna framangreindra brota. Auk þessa var og talið að nauðsyn bæri til að herða viðurlög við einstaka brotum og hækka sektarmörk almennt.

Með þetta markmið fyrir augum voru á árinu gerðar nokkrar breytingar á umferðarlögum, lögum um meðferð opinberra mála og hegningarlögum sem ætlað er að stuðla að auknu umferðaröryggi. Einnig voru settar nýjar reglugerðir og öðrum breytt. Sett var reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og heimildir lögreglustjóra til að beita sektargerðum voru einfaldaðar og rýmkaðar.

Punktakerfi vegna umferðarlagabrota var tekið upp, auk þess sem nú er heimilt að refsa og svipta menn ökurétti vegna ölvunaraksturs á grundvelli öndunarsýna.

Öll börn yngri en 15 ára eru nú skyldug til að nota hlífðarhjálma við hjólreiðar samkvæmt reglugerð sem tók gildi 1. okt. 1997. Erum við fyrsta landið í Evrópu sem setur reglur um skyldunotkun af þessu tagi.

Einnig má nefna að ný reglugerð um ökuskírteini tók gildi 15. ágúst sl. en með henni voru teknar upp samræmdar reglur um ökuskírteini, ökukennslu og ökupróf sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu í samræmi við tilskipun um ökuskírteini. Nýmæli reglugerðarinnar eru þessi helst: Ný samræmd ökuskírteini af greiðslukortagerð voru tekin í notkun, ökuréttindaflokkar endurskilgreindir þar sem fullt tillit er tekið til eldri ökuréttinda og sérstök eftirvagnaréttindi tekin upp, breytingar voru gerðar á aldursmörkum og heilbrigðiskröfur gerðar skýrari. Kröfur um ökukennslu, ökuskóla og ökupróf voru auknar og komið á stigskiptum bifhjólaréttindum sem miðast við afl bifhjóla. Jafnframt hefur verið komið á gagnkvæmri viðurkenningu á ökuskírteinum innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Eins og kom fram í síðustu áfangaskýrslu álítur umferðaröryggisnefndin að besta leiðin til að ná árangri sé að einbeita sér að fáum lykilatriðum og forgangsraða verkefnum og að unnið sé á breiðum grundvelli með þátttöku allra er vinna að umferðaröryggismálum.

Eins og fram hefur komið eru höfuðviðfangsefni nú þessi: Bílbelti og öryggisbúnaður fyrir börn í bílum, ölvunarakstur, ökuhraði og ungir ökumenn.

Mikilvægt er að þátttakendur í umferðaröryggisstarfinu séu margir. Umferðarráð mun gera verkefnaáætlun og tímaáætlun yfir einstök verkefni. Leitað verður eftir samvinnu um að einstök verkefni annarra aðila í umferðaröryggisstarfinu falli saman í tíma til að ná fram meiri áhrifum og athygli almennings.

Ég vil að lokum árétta að það markvissa starf sem hófst með samþykkt umferðaröryggisáætlunarinnar er farið að bera árangur. Ef litið er til baka hafa öll verkefni sem kynnt voru í þál. verið framkvæmd eða eru langt komin. Þetta sýnir svo ekki er um að villast að unnt er að fækka slysum með sameiginlegu átaki þeirra sem að þessum málum koma. Það er fagnaðarefni og ber að þakka hve margir hafa tekið virkan þátt í átakinu og sýnir glöggt að mikill vilji er fyrir því í þjóðfélaginu að vinna gegn þeim vágesti sem umferðarslysin eru.

Ef við lítum til framtíðar þá eru verkefni fram undan sem þarf að móta og gera tillögur um. Í því sambandi hef ég ákveðið að skipa þróunarnefnd til að vinna að nýjungum og framþróun í löggæslumálum. Nefndinni er ætlað að kynna sér nýjungar í löggæslumálum og gera tillögur til ráðherra um mótun löggæslumála á þessu sviði til lengri framtíðar. Einnig mun ég beina því til umferðaröryggisnefndarinnar að hún geri skýrslu um framtíðarsýn í umferðaröryggismálum þar sem stefnu og langtímamarkmiðum eru settar enn strangari kröfur en fram til þessa.

Eins og áður hefur komið fram hefur þeim sem láta lífið í umferðarslysum fækkað nokkuð á undanförnum árum. Einnig hefur orðið jöfn fækkun alvarlega slasaðra. Þetta gerist þrátt fyrir að akstur hefur farið lítillega vaxandi og fjöldi bifreiða aukist á sama tímabili. Við getum því sagt að þetta starf sé að skila verulegum árangri og ég vil nota þetta tækifæri til að þakka þeim hv. þm. sem hafa sýnt þessum málum mikinn skilning og unnið ötullega að framgangi margra verkefna á þessu sviði.