Staða umferðaröryggismála

Mánudaginn 02. febrúar 1998, kl. 17:50:01 (3300)

1998-02-02 17:50:01# 122. lþ. 56.5 fundur 393. mál: #A staða umferðaröryggismála# skýrsl, LMR
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[17:50]

Lára Margrét Ragnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Tæp tvö ár eru frá því að Alþingi samþykkti þáltill. um stefnumótun er varðar aukið umferðaröryggi. Það verður að segjast að framkvæmd og vinnubrögð m.a. með áfangamarkmiðum hafa verið fagleg í þessu efni og hafa reynst árangursrík. Það er mjög til bóta fyrir starf Alþingis að nú skuli vera tekið upp það nýmæli að um umferðarmál skuli vera rætt og verða rætt í framtíðinni reglulega eins og gert er hér í dag. Til stendur að slík skýrsla verði flutt árlega og umræður um hana verði þar á eftir og mun þetta án efa vekja athygli bæði þingmanna og almennings á stöðu mála hverju sinni.

Það er einnig gleðilegt til að vita að alvarlegum slysum hefur fækkað um 19%, eins og komið hefur fram, þ.e. að 47 færri hafa slasast alvarlega árið 1997 miðað við meðaltal næstu fimm ára á undan. Með aukinni samræmingu og skipulegri skráningu umferðarslysa hefur tekist að fá glöggt yfirlit um hvar skórinn kreppir og hvernig nauðsynlegt er að forgangsraða verkefnum eða aðgerðum í umferðaröryggismálum eins og fram kemur í þeirri skýrslu sem við ræðum nú.

Það er ljóst að enn verður að auka áróður og brýna almenning til að nota nauðsynlegan og lögbundinn öryggisútbúnað. Það er alvarlegt að hugsa til þess að sjö mannslíf hafi glatast á síðastliðnu ári vegna þess að sjálfsagður öryggisbúnaður var ekki notaður.

Í skýrslunni kemur ljóslega fram hve samvinna þeirra aðila sem koma að umferðarmálum hefur aukist. Er það afar ánægjulegt og ber að fagna því en hvetja jafnframt til enn aukinnar samvinnu á öllum sviðum umferðarmála og vil ég einkanlega nefna til þess ýmis áhugafélög. Enn fremur er gott til þess að vita að eftir tæplega tveggja ára reynslu megi vænta nú þegar að áætlun um aðgerðir í umferðaröryggismálum muni skila okkur þeim árangri sem að var stefnt í upphafi þessa verkefnis, þ.e. að um verði að ræða 20% fækkun alvarlegra umferðarslysa miðað við meðaltal áranna 1982--1992. Eins og hv. þm. Steingrímur Sigfússon sagði áðan er sú tala sem við höfum nefnt um fækkun alvarlegra umferðarslya á sl. ári ekki gefin til frambúðar og betur má ef duga skal. Við þurfum að halda áfram markvissu starfi og hvetja til þeirra aðgerða sem sannanlega eru nauðsynlegar til að ná settum markmiðum. Ég vil hvetja þingheim til að standa á verði í þessum efnum og taka virkan þátt í umræðum um umferðaröryggisskýrslu þegar hún kemur fram á næsta ári. En ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir góða skýrslu og vonast til þess að hún viti á gott.