Staðfest samvist

Mánudaginn 02. febrúar 1998, kl. 17:54:39 (3301)

1998-02-02 17:54:39# 122. lþ. 56.6 fundur 177. mál: #A staðfest samvist# (ættleiðing) frv., Flm. ÓÖH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[17:54]

Flm. (Ólafur Örn Haraldsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. um breytingu á lögum um staðfesta samvist en gert er ráð fyrir því að við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

,,Ákvæði ættleiðingarlaga um að veita megi öðru hjóna með samþykki hins leyfi til að ættleiða barn þess eða kjörbarn gilda um einstaklinga í staðfestri samvist.``

2. gr. frv. hljóðar svo:

,,1. mgr. 6. gr. laganna verður svohljóðandi:

Önnur ákvæði ættleiðingarlaga um hjón en getur í 2. mgr. 5. gr. og ákvæði laga um tæknifrjóvgun gilda ekki um staðfesta samvist.``

Virðulegi forseti. Þetta frv. er endurflutt frá síðasta þingi en þá voru flutningsmenn þeir sömu og nú, en þeir eru úr öllum flokkum. Ég vil stuttlega geta aðalatriða sem liggja að baki frv.

Meginatriðin eru þau að tryggja börnum sömu réttindi hvort heldur þau búa á heimilum eða við aðstæður þar sem staðfest samvist er eða samkynhneigðir annast uppeldi og forsjá barnsins. Í lögunum frá 1996 er gert ráð fyrir að samkynhneigðir geti veitt forræði hvort heldur um er að ræða kynforeldri eða ekki, en hins vegar var ekki í því frv. gert ráð fyrir að samkynhneigðir gætu ættleitt börn sem kæmu inn í sambúðina. Hér teljum við flutningsmenn að ekki sé gætt samræmis og það sé í anda þessara laga að stjúpættleiðingin sé líka hluti af þeim réttindum sem samkynhneigðum eru tryggð í samvist sinni. Með þessu móti er mun meiri festa sköpuð í fjölskyldulífi og fjölskyldubönd í samvistinni eru treyst en slíkt er afar mikilvægt. Það er einmitt við slíkar aðstæður, þ.e. þar sem tengslin við kynforeldri sem ekki hefur forræði eru með minna móti, að viljinn til að ættleiða börn kemur fram. Það er einmitt með slíkri festu sem ættleiðingin gæti komið barninu til góða.

Ég vil láta það koma fram að lögin, venjur og reglur um ættleiðingu eru mjög takmarkandi og háðar ströngum skilyrðum þannig að ljóst er að ekki verður um mjög marga einstaklinga að ræða, en þó finna þeir einstaklingar að þeirra réttindi eru ekki þau sömu og annarra í þjóðfélaginu. Við flutningsmenn væntum þess að allshn. sem væntanlega tekur þetta mál til umfjöllunar sinni því vel og að málið fái farsælan framgang í meðförum þingsins.