Úrskurður umboðsmanns um ólögmæta hótelstyrki

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 13:42:16 (3305)

1998-02-03 13:42:16# 122. lþ. 57.91 fundur 190#B úrskurður umboðsmanns um ólögmæta hótelstyrki# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[13:42]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er nokkuð óvenjulegt að fá nýjar upplýsingar inn í umræðuna með þeim hætti sem hér gerðist áðan og maður hlýtur eðlilega að spyrja hvers vegna þau gögn frá samgrn. komu ekki fram fyrr. Væntanlega hefur umboðsmaður samkvæmt venju óskað upplýsinga frá ráðuneytinu og innt eftir afstöðu ráðuneytisins til málsins. Eitthvað hafa þeir kunnað illa á skjalasafnið hjá sér í samgrn. úr því að þau gögn eru fyrst að koma í leitirnar nú, auk þess sem fljótt á litið verður ekki endilega séð að það breyti neinu um meginniðurstöðu umboðsmanns að ekki hafi verið lagastoð fyrir skipan þeirrar nefndar sem sett var á laggirnar, þó svo að fjárln. hafi með einhverjum hætti verið tengd inn í málið á fyrri stigum.

Ég vil taka skýrt fram, herra forseti, að ég tel það geta komið vel til greina að stuðla að uppbyggingu í ferðaþjónustu, t.d. með fjárstuðningi við uppbyggingu og rekstur hótela eða annarrar þjónustu af því tagi sem Alþingi ákvað á sínum tíma, og er þá orðið vandlifað ef stjórnvöld mega aldrei beita sér með þeim hætti.

Í öðru lagi samkvæmt þeim venjum sem nú eru tíðkaðar ber slíkum stuðningi að vera í formi styrkja sem liggi fyrir og séu öllum aðgengilegir og sjáanlegir. Hitt er þó ljóst að vanda verður mjög vel til verka þegar slíkt er gert. Í fyrsta lagi þarf að skilgreina mjög vel þau markmið sem stuðningurinn byggir á og í öðru lagi þarf að standa þannig að málum að ekki sé um röskun á samkeppnisgrundvelli sjálfstætt starfandi aðila að ræða.

Í þriðja lagi verður að sjálfsögðu að standa þannig að framkvæmdinni að það sé í samræmi við lög og góðar stjórnsýsluvenjur. Svo virðist ekki hafa verið í þessu tilviki, því miður, og það verður að harma og átelja. Ég er ekki sammála hæstv. forsrh. um að verið sé að gera of mikið úr einhverju smámáli. Það er aldrei smámál ef framkvæmdarvaldið fer út af sporinu og starfar ekki í samræmi við lög.