Úrskurður umboðsmanns um ólögmæta hótelstyrki

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 13:49:24 (3308)

1998-02-03 13:49:24# 122. lþ. 57.91 fundur 190#B úrskurður umboðsmanns um ólögmæta hótelstyrki# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[13:49]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég held að ástæða sé til að vekja aðeins athygli á því um hvað umræðan snýst og að hverju umkvörtunin til umboðsmanns laut. Í fyrsta lagi var kvartað yfir starfsaðferðum þeirrar nefndar sem um hefur verið rætt hér. Kvartað var yfir málsmeðferðinni sjálfri og síðan yfir almennu og sérstöku hæfi nefndarmanna.

Ég held að mjög mikilvægt sé að menn átti sig á því að umboðsmaður tók ekki afstöðu í málinu með þeim hætti sem umræðan hefur að mörgu leyti gefið til kynna. Niðurstaða umboðsmanns laut eingöngu að einum þætti málsins og hann sá ekki ástæðu til að fjalla um aðra þætti þess. Þetta er mjög mikilvægt að menn hafi í huga.

Menn hafa líka rætt töluvert um lögmæti þessarar nefndar og út á það gekk m.a. umfjöllun umboðsmannsins. Þá held ég að sé mikilvægt að við áttum okkur á því hvernig þetta mál hefur borið að. Málið var kynnt á fundi í stjórn Ferðamálaráðs Íslands, þriðjudaginn 31. jan. 1995 og þar segir í fundargerð, með leyfi virðulegs forseta:

,,Eftir nokkrar umræður var tillaga framkvæmdastjórnar til ráðsins um fjárhagsáætlun samþykkt í þeirri mynd sem meðfylgjandi plagg sýnir. Þar eru 20 milljónir til hótela á landsbyggðinni inni í heildarupphæðinni og samþykkt var tillaga formanns [formanns Ferðamálaráðs] um að leggja til að komið verði á fót þriggja manna starfshópi til að fjalla um skiptingu fjárins. Lagt er til að í hópnum eigi sæti einn fulltrúi frá Ferðamálaráði, einn frá svokallaðri hótelnefnd og einn frá Ferðamálasjóði.``

Síðan er málið áréttað aftur hálfum mánuði síðar þannig að það liggur fyrir að Ferðamálaráði var fyllilega kunnugt um það. Ferðamálaráð ályktaði um málið enda kemur það líka fram í fréttatilkynningu sem Ferðamálaráð hefur sent frá sér að því var fullkunnugt um málið. Ég tel því að þetta sé mjög sérkennileg umræða sem verið er að efna til fyrir utan það, eins og kom í raun fram fyrr í umræðunni, að oft hefur verið fundið að því að styrkir af öllu tagi séu ekki nægilega gagnsæir. Hér er því ákvæði þó a.m.k. fullnægt því að auðvitað er um að ræða gagnsæja styrki sem veittir voru af fjárlögum Alþingis og úthlutað formlega.