Úrskurður umboðsmanns um ólögmæta hótelstyrki

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 13:56:27 (3311)

1998-02-03 13:56:27# 122. lþ. 57.91 fundur 190#B úrskurður umboðsmanns um ólögmæta hótelstyrki# (umræður utan dagskrár), StB
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[13:56]

Sturla Böðvarsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið við umræðuna skipaði hæstv. samgrh. nefnd sem gera skyldi tillögur um að styrkja rekstrargrundvöll heilsárshótela á landsbyggðinni. Auk mín voru í nefndinni einn hótelstjóri, fulltrúi Byggðastofnunar, skrifstofustjóri í fjmrn. og formaður Ferðamálaráðs. Nefndin skilaði tillögum sem fólu m.a. í sér breytingar á lögum, og tillögur um beina styrki til heilsárshótela á landsbyggðinni á grundvelli sérstakrar fjárveitingar. Ferðamálasjóður, sem átti mikilla hagsmuna að gæta gagnvart hótelunum, og Ferðamálaráð áttu aðild að starfi nefndarinnar og samþykkti Ferðamálaráð eins og fram hefur komið að samgrh. skipaði þriggja manna nefnd er gera skyldi tillögur um skiptingu 20 millj. kr. fjárveitingarinnar. Ferðamálaráð og Ferðamálasjóður áttu fulltrúa í nefndinni og voru því beinir aðilar þessa máls og unnu það í samstarfi og með atbeina samgrn. Yfirlýstur tilgangur aðgerða var að bæta stöðu þeirra hótela sem hafa leitt uppbyggingu ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni og hafa kostað mestu til allt árið, eru eins konar flaggskip ferðaþjónustunnar í landshlutunum og ráða yfir nauðsynlegri aðstöðu til ráðstefnuhalds og fundahalda og bjóða fram faglega þjónustu. Heilsárshótelin hafa verið rekin sem alvörufyrirtæki á erfiðum markaði í harðri samkeppni við þau gistihús sem fleyta rjómann yfir sumartímann og mörg hver eru í húsnæði sem hefur ekki hvílt á rekstrinum eða eru í eigu opinberra aðila. Það er ekki í þágu ferðaþjónustu á Íslandi að tortryggja viðleitni hæstv. samgrh. þegar hann beitir sér fyrir því að bæta stöðu heilsárshótela á landsbyggðinni.