Úrskurður umboðsmanns um ólögmæta hótelstyrki

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 13:58:27 (3312)

1998-02-03 13:58:27# 122. lþ. 57.91 fundur 190#B úrskurður umboðsmanns um ólögmæta hótelstyrki# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[13:58]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Staðreyndir málsins eru ákaflega skýrar. Um það er ekki deilt á hinu háa Alþingi að pólitískur vilji er til þess að styrkja og styðja ferðamannaiðnað hér á landi. Það hefur margoft komið fram. Um það er heldur ekki deilt að framkvæmd þessa vilja Alþingis af hálfu hæstv. samgrh. hefur ekki farið í samræmi við lög. Úrskurður umboðsmanns Alþingis er ákaflega skýr þar um og ég heyri það ekki í umræðunni að nokkur hér inni vefengi þá niðurstöðu. Það eru hinar tvær stóru og veigamiklu staðreyndir málsins. Þá er sú spurning eftir hvernig skuli við bregðast og er einhver vilji til þess hjá hæstv. ríkisstjórn, hjá hæstv. forsrh., sem var tilefni umræðunnar, að bregðast einhvern veginn við þessum veruleika. Hæstv. forsrh. sagði í upphafsræðu sinni, það mátti skilja hann þannig, að umræðan væri sumpart ekki tímabær því meintar málsbætur hefðu komið fram af hálfu hæstv. samgrh. til umboðsmanns í bréfi dags. 30. jan. sl. Ber þá að skilja hæstv. forsrh. þannig að ef umboðsmaður telur meintar málsbætur ekki breyta niðurstöðu hans og hann árétti þá meginniðurstöðu sína að rangt hafi verið að verki staðið, að þá komi hæstv. forsrh. til með að bregðast við með einum eða öðrum hætti? Er hann með öðrum orðum sagt að segja við þingheim: Þetta er rangur tímapunktur, við skulum taka umræðuna upp síðar meir þegar umboðsmaður Alþingis hefur metið meintar málsbætur samgrh. Og hvað telur hann að þá skuli gera?