Úrskurður umboðsmanns um ólögmæta hótelstyrki

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 14:02:34 (3314)

1998-02-03 14:02:34# 122. lþ. 57.91 fundur 190#B úrskurður umboðsmanns um ólögmæta hótelstyrki# (umræður utan dagskrár), Flm. LB
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[14:02]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það hefur verið fróðlegt að hlýða á hv. stjórnarliða tala í þessu máli vegna þess að þeir hafa verið að reyna að dreifa athyglinni frá því sem máli skiptir. Tvær eftirlitsstofnanir hafa komist að þeirri niðurstöðu að um ólögmætar aðgerðir sé að ræða hvort heldur skoðuð eru vinnubrögð nefndarinnar eða tilvist hennar. Það er nákvæmlega kjarni málsins. Það breytir í raun engu hvort einhverjar nýjar upplýsingar berast umboðsmanni Alþingis því Samkeppnisráð hefur fyrir lifandis löngu dæmt þau vinnubrögð nefndarinnar dauð og ómerk og í andstöðu við gildandi samkeppnislög. En hér hafa menn verið að reyna að dreifa athyglinni frá því sem máli skiptir. Staðreyndin er einfaldlega sú að hér hafa verið margbrotin lög og það gerir nefnd sem hæstv. samgrh. ber ábyrgð á.

Hæstv. samgrh. fékk alla möguleika á að koma sínum vörnum við hjá umboðsmanni Alþingis. Hann sinnti því ekki sem skyldi. Ég get ekki ímyndað mér að nýjar upplýsingar í þessu máli breyti nokkru þar um. Það liggur bara fyrir að skipun þessarar nefndar var ólögmæt, hún var andstæð lögum. Og það er sorglegt að hlýða á málflutning stjórnarliða í þessu máli þar sem þeir í varnarbaráttu sinni fyrir ráðherra reyna að beita fyrir sig rökum sem eru á mörkum þess að vera boðleg á Alþingi.

Viðbrögð hæstv. forsrh. í þá veru að málið sé smámál, þ.e. að lög hafi verið margbrotin, þykir mér mjög merkileg yfirlýsing. Ég átta mig satt best að segja ekki á því að það skuli vera smámál ef ráðherrar brjóta landslög. Ég hreinlega vissi ekki til þess að það væri smámál. En það breytir því ekki --- ég sé að tíminn er að renna út --- að eftir stendur spurningin um það, og henni er enn ósvarað, hvort hæstv. forsrh. hyggst láta samgrh. sæta pólitískri ábyrgð á því að hann ber ábyrgð (Forseti hringir.) á að nefndir og ráð, sem undir hann heyra, hafa þverbrotið lög. Það er nákvæmlega kjarni málsins og fróðlegt verður að heyra svör við því.