Búnaðarlög

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 14:08:36 (3316)

1998-02-03 14:08:36# 122. lþ. 57.3 fundur 368. mál: #A búnaðarlög# frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[14:08]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til búnaðarlaga sem flutt er á þskj. 599 og er 368 mál þingsins.

Verði frv. þetta að lögum munu þau leysa af hólmi jarðræktarlög, nr. 56/1987, og lög um búfjárrækt, nr. 48/1989.

Ákvæði jarðræktarlaga eru undirstaða þess skipulags sem gilt hefur hér á landi á meginhluta þessarar aldar um stuðning ríkisins við jarða- og húsabætur í sveitum. Á sama hátt eru búfjárræktarlögin undirstaða þeirra framfara í búfjárrækt sem orðið hafa hér á landi síðustu áratugina. Þessi tvenn lög eru einnig meginundirstaða þeirrar ráðunautaþjónustu sem rekin hefur verið á vegum landbúnaðarins. Loks hafa lögin að geyma ákvæði sem verið hafa lagalegur grunnur þess félagsskipulags sem Búnaðarfélag Íslands, nú Bændasamtök Íslands, byggist á, en þessi samtök eru meðal elstu félagasamtaka í landinu og rekja sögu sína til ársins 1837.

Í gildandi jarðræktarlögum er Bændasamtökum Íslands falin framkvæmd jarðræktarmála. Í lögunum er bindandi listi yfir verkefni á sviði jarðabóta sem framlags geta notið. Þá eru í lögunum grundvöllur ráðunautaþjónustu í jarðrækt. Þar eru ákvæði um fjölda ráðunauta og þátttöku ríkisins í greiðslu launa þeirra, svo og ákvæði um menntunarkröfur sem gerðar eru til þeirra sem ráðnir eru til slíkra starfa.

Í gildandi búfjárræktarlögum er Bændasamtökum Íslands falin framkvæmd búfjárræktarmála og leiðbeiningarþjónustu í búfjárrækt. Í lögunum eru m.a. ákvæði um að ríkissjóður taki þátt í stofnun og rekstri ræktunarstöðva fyrir búfé og sóttvarnarstöðva vegna innflutnings búfjár. Ákvæði eru um búfjársæðingar og verndun erfðaeiginleika í íslensku búfé.

Hafa þarf í huga að þegar sú löggjöf sem að framan er lýst var í mótun ríkti hér á landi skortur á öllum helstu búvörum og verulegt magn var flutt inn af þeim flest árin, bæði af kjöti og mjólkurvörum. Markmið þessarar löggjafar var að efla íslenskan landbúnað og gera hann færan um að fullnægja þörfum þjóðarinnar fyrir helstu búvörur á viðráðanlegu verði. Þrátt fyrir að því marki væri náð um 1960 að fullnægja þörfum þjóðarinnar fyrir helstu búvörur var hins vegar ekki að sama skapi dregið úr framlögum til jarðræktar og búfjárræktar. Á 7. og 8. áratugnum voru hér umfangsmestu framkvæmdir á sviði jarðræktar, búfjárræktar og annarra framkvæmda í sveitum sem nokkru sinni hafa orðið. Þá voru uppi ráðagerðir um umfangsmikla framleiðslu til útflutnings, enda var útflutningur búvara tiltölulega hagstæður allt fram yfir 1970 miðað við það sem síðar varð. Um það leyti fór hins vegar að halla undan fæti í útflutningsmálunum og ljóst varð að í verulega offjárfestingu og offramleiðslu stefndi innan landbúnaðarins. Árið 1979 voru samþykkt lög sem heimiluðu að gripið yrði til framleiðslutakmarkana í landbúnaðinum og í framhaldi af því var dregið úr lánveitingum til framkvæmda.

Hins vegar var áherslum að því er varðar framlög til jarðræktarframkvæmda og byggingar útihúsa lítið breytt og í gildandi lögum sem samþykkt voru árið 1987 er t.d. að finna ákvæði um að ríkið greiði 60% af kostnaði við vélgrafna skurði og ákvæði um styrki til túnræktar eru lítið breytt þrátt fyrir að þörf fyrir þessar jarðræktarframkvæmdir væru stórum minni en áður vegna fækkunar búfjár og samdráttar í framleiðslunni. Einnig var gagnrýnt það sem kallað var sjálfvirkni í styrkjum til jarðræktar og til framkvæmda við byggingar útihúsa og hve lítill sveigjanleiki væri í kerfinu og að ríkisvaldið hefði mjög takmarkaða möguleika eins og styrkjakerfið væri upp byggt til þess að hafa áhrif á ráðstöfun fjármunanna.

Þess ber þó að geta að við síðustu endurskoðun á þessum lagabálkum voru framlög verulega takmörkuð og til sumra hluta voru þau alveg felld niður. Enda þótt nokkuð væri dregið úr framlögum til jarðræktarframkvæmda við síðustu endurskoðun jarðræktarlaganna varð ekki samstaða um stefnubreytingu til samræmis við breytta stefnu í framleiðslumálum og þá breytingu á rekstrarumhverfi landbúnaðarins sem fyrirsjáanleg var í kjölfar þess að viðræður hófust um nýjan GATT-samning í lok síðasta áratugar. Leiddi þetta til þess að lögin hafa að miklu leyti verið óvirk síðustu árin þar sem ekki hefur verið veitt fé á fjárlögum til jarðabóta samkvæmt ákvæðum þeirra og umtalsvert hefur verið dregið úr framlögum til búfjárræktar.

Það frv. sem hér er flutt gerir ráð fyrir að samþykkt verði ný lög sem leysi af hólmi gildandi lög um jarðrækt og búfjárrækt. Frumvarpið er samið af nefnd sem í áttu sæti fulltrúar frá landbrn., fjmrn. og Bændasamtökum Íslands. Nefnd sú sem frv. samdi sendi búnaðarþingi 1997 drög að frv. til umsagnar. Í ályktun búnaðarþings kemur fram að þingið telji, með leyfi forseta: ,,að samþykkt fyrirliggjandi frumvarpsdraga til ,,búnaðarlaga`` sé í aðalatriðum æskilegur gjörningur``.

Um er að ræða rammalög sem gera ráð fyrir samningum milli ríkisins og Bændasamtaka Íslands um verkefni á sviði jarðabóta, búfjárræktar, leiðbeininga og framleiðniaukandi verkefna sem notið geti fjárstuðnings ríkisvaldsins. Ekki þykir raunhæft né skynsamlegt frá þjóðhagslegu sjónarmiði að íslenskur landbúnaður fremur en landbúnaður nálægra landa geti haldið hlut sínum án áframhaldandi stuðnings ríkisvaldsins við þau verkefni sem að framan greinir í því breytta rekstrarumhverfi sem við landbúnaðinum blasir vegna aukinnar samkeppni í kjölfar opnari viðskiptahátta með búvörur.

Með því fyrirkomulagi sem frv. gerir ráð fyrir er bændum og stjórnvöldum hins vegar tryggður möguleiki til að gera breytingar á, hætta við eða hefja ný verkefni með mun einfaldari og markvissari hætti en verið hefur.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að framlög ríkisins miðist fyrst og fremst við að um sé að ræða stuðning við verkefni sem stuðli að framförum í íslenskri búvöruframleiðslu og aukinni hagkvæmni í búrekstri með það að markmiði að styrkja samkeppnishæfni landbúnaðar og efla hag bænda. Það er ekki gert ráð fyrir stuðningi sem stuðli að aukinni heildarframleiðslu. Þetta er í samræmi við þá stefnumörkun sem rutt hefur sér til rúms á undanförnum árum á alþjóðavettvangi og liggur m.a. til grundvallar landbúnaðarhluta nýgerðs GATT-samnings.

Með tilkomu samninga eins og hér er gert ráð fyrir hefur öll sú stefnumörkun sem mestu máli skiptir varðandi landbúnaðarframleiðsluna verið felld undir beina samninga milli ríkisins og samtaka bænda. Þar er í fyrsta lagi um að ræða búvörusamninga um framleiðslu mjólkur og sauðfjárafurða samkvæmt búvörulögum og í öðru lagi samninga um framlög og verkefni á sviði jarðabóta, búfjárræktar, leiðbeiningarstarfsemi og hagræðingar samkvæmt ákvæðum frv. þessa. Benda má á að slíkt fyrirkomulag um heildarstefnumörkun á sviði landbúnaðar hefur um árabil tíðkast í nágrannalöndunum.

[14:15]

Hæstv. forseti. Ég ætla að gera stuttlega grein fyrir þeim greinum frv. sem þarfnast frekari útskýringa.

Í 2. gr. eru rakin markmið laganna en með þeim er stefnt að því að skapa landbúnaðinum betri aðstöðu til þess að starfa í því opna viðskiptaumhverfi sem hann nú býr við og að sem mest jafnræði sé milli bænda hér á landi og bænda í nálægum löndum að því er rekstrarskilyrðin varðar.

Í 3. gr. er kveðið á um samninga milli ríkisins og Bændasamtaka Íslands um verkefni á sviði jarðabóta, búfjárræktar, leiðbeiningarstarfsemi og atvinnuuppbyggingar í sveitum og aukinnar framleiðni. Gert er ráð fyrir að gerður sé samningur til fimm ára um verkefni og framlög til þeirra og skal hann endurskoðaður og framlengdur annað hvert ár. Í greininni er kveðið á um að Bændasamtök Íslands hafi á hendi faglega og fjárhagslega umsjón þeirra verkefna sem frv. nær til. Þetta ákvæði er ekki breyting frá því sem nú er. Því er bætt við að semja megi öðruvísi enda sé það skipulag og þær starfsreglur í samræmi við ákvæði frv.

Um Framleiðnisjóð sem frv. gerir ráð fyrir að samið verði um fjárframlög til samkvæmt 1. mgr. greinarinnar gilda þó sérlög, lög nr. 89/1966, og fer því eftir ákvæðum þeirra laga um umsjón og ábyrgð á rekstri hans.

Í 4. gr. frv. er fjallað um hlutverk fagráða. Það fyrirkomulag sem hér um ræðir hefur á undanförnum árum rutt sér til rúms innan félagskerfis landbúnaðarins. Fagráðin eru vettvangur samráðs milli heildarsamtaka bænda, samtaka bænda innan einstakra búgreina og fagmanna um stefnumörkun í faglegum málefnum samkvæmt þeirri félagsskipan sem tekin var upp við sameiningu Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda. Fagráð móta stefnu í kynbótum og þróunarstarfi viðkomandi búgreinar eða fagsviðs. Gert er ráð fyrir að fagráð geti einnig starfað á einstökum fagsviðum, svo sem í jarðrækt og hagfræði. Með þessu fyrirkomulagi er verið að auka áhrif bænda í einstökum búgreinum á faglega stefnumörkun í málefnum greinarinnar og um leið að skapa samráðsvettvang fyrir alla þá sem starfa að kynbótum, rannsóknum, fræðslu og öðru þróunarstarfi fyrir viðkomandi búgrein eða fagsvið.

Með ákvæðum 5. gr. er lögunum breytt til samræmis við þær breytingar á félagsskipulagi bænda sem urðu við sameiningu Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda í Bændasamtök Íslands. Hér er um að ræða hliðstæð ákvæði og verið hafa í jarðræktarlögum um áratugaskeið.

Í 6. gr. er kveðið á um markmið jarðabóta. Jarðabætur skulu samkvæmt ákvæðum greinarinnar miða að því að bæta aðstöðu til búskapar á viðkomandi býlum og með því stuðla að framförum í landbúnaðinum og auka samkeppnishæfni hans. Hugtakið jarðabætur er hér túlkað mun opnara en í eldri lögum og getur átt við hvers konar hagræðingar- og þróunarverkefni á sviði ræktunar, landbóta og framkvæmda við rekstrarbyggingar og endurbætur á þeim.

Engar viðræður hafa enn farið fram milli ríkisvaldsins og Bændasamtaka Íslands um viðfangsefni á sviði jarðabóta sem stuðnings gætu notið samkvæmt samningi sem gerður yrði á grundvelli ákvæða þessara. Ég vil hins vegar vísa til þess að í greinargerð með frv. er listi sem nefnd sú er frv. samdi hefur tekið saman yfir viðfangsefni sem fallið gætu innan ramma samningsins sem gerður yrði á grundvelli væntanlegra búnaðarlaga og fælu ekki í sér hvatningu til aukinnar framleiðslu heldur bæru með sér nýjar áherslur, miðuðu að aukinni hagkvæmni og stefndu að aukinni umhverfisvitund og bættu starfsumhverfi.

Þá eru í greininni þau nýmæli í lögum að kveðið er á um að jarðabætur skuli taka mið af alþjóðlegum skuldbindingum Íslendinga um varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni og markmiðum þjóðarinnar um verndun umhverfis og sjálfbæra þróun. Er þetta í samræmi við vaxandi skilning á hlutverki bóndans sem vörslumanns lands og nauðsyn þess að landbúnaður sé stundaður í sátt við umhverfið. Þá er lögð áhersla á að með jarðabótum sé stuðlað að framþróun vistrænna og lífrænna búskaparhátta og m.a. á þann hátt komið til móts við óskir neytenda um fjölbreyttara framboð búvara.

Um framkvæmd og eftirlit með jarðabótum er fjallað í 7. og 8. gr. en þar er skýrt kveðið á um að ekki verður hægt að fá jarðabætur nema um það hafi verið samið eins og lýst er í 3. gr. frv. Miðað við núgildandi lög verður hér töluverð breyting því að samið er til ákveðins tíma um ákeðna fjármuni. Þau markmið og fjármunir til jarðabóta sem samið er um má síðan endurskoða á tveggja ára fresti svo sem áður segir. Hér er því engin sjálfvirkni eins og sumir tala um að sé í núgildandi lögum.

Ákvæði 9.--16. gr. eru hliðstæð ákvæðum gildandi laga um búfjárrækt sem hafa verið grundvöllur búfjárræktarstarfsins síðustu áratugi. Þrátt fyrir þær miklu breytingar sem frv. þó felur í sér og breytilegar áherslur varðandi einstök atriði er gert ráð fyrir því að standa áfram vörð um viss grundvallaratriði búfjárræktarinnar. Gert er ráð fyrir því að Bændasamtök Íslands séu í forsvari varðandi framkvæmd þessara mála og móti um það reglur.

Í 17. gr. eru skilgreind markmið leiðbeiningarþjónustu. Ákvæði þessi eru mun ítarlegri en hliðstæð ákvæði í gildandi lögum og undirstrika hið mikilvæga hlutverk sem leiðbeiningarþjónusta gegnir í því starfsumhverfi sem nútímalandbúnaður býr við og þau fjölbreyttu verkefni sem slík þjónusta þarf að geta sinnt.

Ýmsir kunna að velta fyrir sér raunverulegu gildi þessarar starfsemi fyrir landbúnaðinn og þjóðfélagið í heild. Í könnun sem ÍM-Gallup gerði fyrir landbúnaðarráðuneytið í desember 1996 kom í ljós að um 80% bænda notfæra sér þjónustu héraðsráðunauta búnaðarsambandanna. Í könnuninni kemur fram að yngri bændur leita mun oftar til ráðunauta en þeir eldri. Einnig kemur fram greinileg fylgni milli bústærðar og tekna af búskap og þess hversu oft er leitað aðstoðar ráðunauts.

Gert er ráð fyrir að annars vegar starfi ráðunautar á leiðbeiningarmiðstöðvum sem reknar eru af búnaðarsamböndum, einu eða fleiri, á svæðagrundvelli, og hins vegar landsráðunautar í einstökum búgreinum og/eða fagsviðum eins og tíðkast hefur um langt skeið. Búnaðarsamböndin í landinu eru nú 15 talsins og hafa þau öll ráðunauta í sinni þjónustu. Vegna bættra samgangna, færri framleiðenda og vaxandi kröfu og aukna faglega fjölbreytni þjónustunnar, samhliða aukinni þörf á sérhæfingu má gera ráð fyrir að þessi starfsemi færist í það horf að búnaðarsambönd á stærri svæðum bindist samtökum um rekstur leiðbeiningarmiðstöðva þar sem ráðunautar og aðrir sérfræðingar í þjónustu búnaðarsambanda starfi.

Rætt hefur verið um að slíkar leiðbeiningarmiðstöðvar yrðu 4--5 á landinu öllu. Með slíku fyrirkomulagi skapast grundvöllur fyrir auknu faglegu samráði, aukinni verkaskiptingu og meiri fjölbreytni í þjónustunni.

Gert er ráð fyrir að landsráðunautar starfi í einstökum búgreinum og/eða á einstökum fagsviðum. Hlutverk landsráðunautanna verði m.a. að hafa á hendi yfirumsjón með kynbótum og ræktun í viðkomandi búgrein og að vera fagráðum til ráðuneytis um mótun ræktunarstefnu. Frv. gerir ráð fyrir að landsráðunautar starfi undir faglegri og fjárhagslegri yfirstjórn Bændasamtaka Íslands og á þess vegum, en geti einnig samkvæmt sérstöku samkomulagi starfað á vegum annarra aðila innan félagskerfis bænda, hjá rannsóknastofnunum, skólastofnunum og skyldum aðilum.

Í tengslum við þessa endurskoðun jarðræktarlaganna og laga um búfjárrækt náðist samkomulag á milli landbrh. og fjmrh. annars vegar og Bændasamtaka Íslands hins vegar um nokkur veigamikil atriði sem vert er að minnast.

Í fyrsta lagi var samið um fjármuni svo leita mætti eftir samningum við bændur um greiðslur á sérstökum framlögum vegna framkvæmda á lögbýlum sem teknar voru út og samþykktar af héraðsráðunautum á árunum 1992--1997. Í ákvæðum til bráðabirgða er kveðið á um framkvæmd þessa. Til verkefnisins verður varið samtals 150 millj. kr. sem skipt verður niður á næstu þrjú ár eða 50 millj. á ári, þær fyrstu samkvæmt nýsamþykktum fjárlögum fyrir árið í ár.

Í öðru lagi verður a.m.k. 117 millj. kr. á næstu þremur árum eða 39 millj. kr. á ári til jarðabóta samkvæmt ákvæðum þessa frv.

Í þriðja lagi var samið um breytingu á ákvæðum búvörusamningsins sem heimilar að færðar verði 30 millj. á þremur árum af liðnum Til niðurgreiðslna á vaxta- og geymslukostnaði yfir á liðinn Til niðurgreiðslna á ull.

Í fjórða lagi var samþykkt var að greiða uppbætur á verðstýringargjaldi sem lagt var á kindakjöt árið 1996. Samtals getur sú upphæð numið 30--35 millj. kr. Svo þessu mætti ná fram var einnig samið um breytingu á því ákvæði sem kveður á um fjármuni til uppkaupa á greiðslumarki í sauðfjárframleiðslu. Þar var fyrirséð að nýta mátti til annarra verkefna mikla fjármuni sem ekki færu í uppkaup á greiðslumarkinu. Af þessum lið var samið um að 59 millj. kr. færu til þeirra nýju verkefna sem ég taldi upp hér að framan.

Til uppgjörs á gömlu lögunum og til tilvonandi búnaðarlaga fengust því samtals 267 millj. kr. Með öðrum orðum má segja að það séu nettó um 208 millj. á móti þeim 59 millj. sem áður voru inni í búvörusamningnum.

Loks má nefna að ríkisstjórnin féllst á að verja 175 millj. til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins á fjárlögum árins 1998 sem Alþingi samþykkti síðan með afgreiðslu fjárlaganna en um það voru engir samningar og jafnframt er gefið fyrirheit um að framlög verði ekki lægri næstu tvö árin.

Hæstv. forseti. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðarinnar og athugasemdar með frv. Hvað varðar meðferð málsins vil ég leggja áherslu á nauðsyn þess að lögfesta frv. á þessu þingi.

Að lokum legg ég til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. landbn.