Búnaðarlög

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 14:28:24 (3319)

1998-02-03 14:28:24# 122. lþ. 57.3 fundur 368. mál: #A búnaðarlög# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[14:28]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það gleður mig að ekki skuli ágreiningur milli hæstv. umhvrh. og hæstv. landbrh. um hvernig framkvæma eigi þessi lög. Það kemur heldur ekki á óvart. En það sem kemur svolítið á óvart er það að í fyrsta lagi hefur hæstv. umhvrh. sýnt því nokkurn áhuga að endurheimta votlendi.

Í öðru lagi hefur hann lagt fram frv. þar sem beinlínis er sagt að meðal viðfangsefna sem gætu notið jarðabótaframlaga sé friðun og verndun votlendis. Það liggur líka fyrir í skýrslu sem hæstv. umhvrh. afhenti að beiðni minni í þinginu í fyrra að ákveðnar fuglategundir á Íslandi eru að hverfa vegna þess að svo hefur verið gengið á hefðbundin búsvæði þeirra, þ.e. votlendið. Ég nefni flórgoðann sem dæmi. Hæstv. ráðherra hefur beitt sér fyrir sérstakri verndaráætlun til þess að reisa þann ágæta fugl við.

Herra forseti. Hæstv. ráðherra hefur lýst sínum góðum áætlunum sem ég þekki líka annars staðar að en úr ræðum hans hér. Þess vegna finnst mér það skjóta skökku við hann skuli ekki vilja segja það hreint út að hann muni sem ráðherra málaflokksins beita sér fyrir því nýmæli að þeir fáu bændur sem vildu endurheimta votlendi með því að moka aftur ofan í skurði nytu jarðabóta alveg eins og þeir hafa notið jarðabóta öldina út til þess að eyðileggja votlendi og þar með búsvæði ýmissa mikilvægra og nýtilegra tegunda.