Búnaðarlög

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 15:00:16 (3326)

1998-02-03 15:00:16# 122. lþ. 57.3 fundur 368. mál: #A búnaðarlög# frv., EgJ
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[15:00]

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Það er jafnt á komið fyrir mér og hv. síðasta ræðumanni að við eigum báðir ásamt öðrum hv. þm. sæti í landbn. og þar verður að sjálfsögðu farið ítarlega yfir þetta mál. Ég held að það sé eðlilegur og sjálfsagður kostur að svo verði og þar af leiðandi ætla ég einungis að minnast á örfá atriði og þarf svo sem ekki endilega að óska eftir miklum skýringum af hendi hæstv. landbrh. þar að lútandi á þessu stigi málsins.

Fyrst er til að nefna það sem síðast er efnislega í þessu frv., þ.e. ákvæði til bráðabirgða, þar sem kemur að uppgjöri við bændur á jarðræktarframlögum frá árinu 1992 og til þessa árs. Þar finnst mér ekki stórmannlega farið að, að þegar ríkisvaldið hefur vanrækt að sinna þessum greiðslum öll þessi ár skuli ekki vera kveðið á um að gera það skikkanlega upp því að ekki eru upphæðirnar svo háar. Þessi tilgreindu ár hefðu jarðræktarframlög átt að nema 60--70 millj. á ári, að ég hygg, og það er 1/10 hluti þess sem var árið 1984 eða þar um bil. Þá var auðvitað talað um að jarðræktarframlög væru umtalsverð, enda voru þau þá að upphæð, eitthvað í kringum 0,5 milljarðar kr. En þessu var breytt og þau voru komin niður í þetta og búið að semja um það og þá var hætt að borga. Og það er til lítils sóma fyrir þá sem þar hafa staðið að málum og gildir það einu þótt Sjálfstfl. hafi farið með forræði fjármála öll þessi ár.

Ég undirstrika það alveg sérstaklega að áður en frv. verður afgreitt frá landbn. verður að liggja fyrir hvernig þessi mál verða gerð upp. Ég hef ekki neitt sérstakt traust á bændaforustunni til þess að annast þau verkefni þannig að sómasamlegt geti talist fyrir bændur almennt í landinu.

Eins er farið með samningsákvæðið í 3. gr. Auðvitað er vel hægt að fallast á að samningar séu gerðir um þessi efni til ákveðins árafjölda. Jarðræktarlög hafa gjarnan verið endurskoðuð í gegnum tíðina á svona fimm ára fresti að jafnaði og ekkert er því til fyrirstöðu að gerður sé samningur sem nær yfir nokkur ár. En það þarf að liggja fyrir þegar þetta frv. verður afgreitt frá landbn. hvers eðlis sá samningur á að vera. Það tel ég mikið grundvallaratriði í þessum efnum.

Ég tek undir gagnrýni hv. þm. Ágústs Einarssonar á það sem segir í 2. gr. frv. Mér sýnist að þessi lagastafur um að landbúnaði á Íslandi skuli búin þau skilyrði að jafnræði sé á við bændur í nágrannalöndum, veki miklar tálvonir, a.m.k. eins og landbúnaðarstefnan hefur verið allra síðustu árin. Ég bendi líka á það sem segir í 2. gr., að þessi fjárframlög skuli sérstaklega stuðla að þróun nýrra framleiðsluhátta og nýrra greina innan landbúnaðarins. Mér er ekki alveg ljóst hvað er átt við í þessum efnum. Ég hefði satt að segja álitið að hefðbundnu greinarnar sem ekki hafa verið búin allt of góð skilyrði, væru í mestri þörf fyrir að bæta ræktun í okkar landbúnaði. Það var satt að segja svolítið broslegt að hlusta á hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefna þetta í sambandi við votlendið. Staðreyndin er sú að mikill hluti af ræktuninni er orðinn stórspilltur vegna þess að ekki hafa verið möguleikar á því að viðhalda framræslukerfinu. Og það er mikill misskilningur hjá honum að eitthvað sérstaklega sé verið að þrengja að flórgoðanum. Það hefur vantað inn í alla þá umræðu hvað votlendi er gríðarlega mikið að aukast á Íslandi, m.a. vegna þess að land er að gróa upp og þar er gjarnan um votlendi að ræða.

Ég er þó nokkuð kunnugur þessu máli og það vill nú svo til að ég og hv. þm. höfum ferðast saman um lendur þar sem ekki var lifandi fyrir nokkurn fugl og allra síst votlendisfugla. Þarna hefur orðið gjörbreyting. Þetta landsvæði á þessum eina stað tekur til u.þ.b. 4.000 hektara. Breytingarnar, bara á þessum eina stað, eru ekkert mjög langt frá því sem tæki yfir stóran hluta af öllu framræstu landi í Austur-Skaftafellssýslu svo ég taki bara sem dæmi þannig að menn verða að horfa aðeins í kringum sig í þessari umræðu.

Vegna þess að hv. þm. var að benda á að jarðræktarlögunum yrði breytt eða þessum áherslum með tilliti til nýrra tíma og vistvænna umhverfis, er nauðsynlegt að fram komi að engin landgræðsluframkvæmd hefur verið gerð jafnþýðingarmikil og sú að rækta upp tún í þeim mæli sem verið hefur. Með því hefur verið dregið úr beitarálagi og það hefur einmitt gert það að verkum að land hefur verið að gróa upp í stórum stíl á síðustu árum. Það er eðlilegt að halda þessu til haga hér af því að það er svolítill skrumtónn í frv. að þessu leyti. Það er vel hægt tala um landvernd og landgræðslu án þess að draga hana á þennan hátt inn í umræðuna.

Hv. þm. Ágúst Einarsson flutti hefðbundna krataræðu sem reyndar fjallar ekkert sérstaklega um þetta frv. Hann talaði m.a. um stuðning og GATT í því sambandi. Maður verður að álykta út frá því að það sé andsvar við frv. sem hér er verið að flytja. En hver eru viðbrögð nágrannaþjóða okkar í sambandi við GATT? Hvað eru þær þjóðir að gera núna sérstaklega til þess að búa sinn landbúnað undir hugsanlegar breytingar? Þær eru að breyta útflutningsbótum, sem við afnámum nú í einu lagi og meira en það því við tókum upp útflutningsbann, yfir í jarðræktarframlög. Eins og hér hefur komið fram er t.d. í Norður-Evrópu og í Skandinavíu sérstaklega, verið að hækka jarðræktarframlögin. Það er verið að koma útflutningsbótunum fyrir í græna geiranum. Í þeim löndum hefur tekist þannig til, a.m.k. sums staðar --- af því hef ég tiltölulega nákvæma vitneskju --- að þar hefur afkoma bænda batnað á síðustu árum. T.d. í Skotlandi og á Norðurlöndum hefur afkoman batnað um 10% á síðustu árum en það hefur m.a. gerst vegna þess að menn hafa haldið fjármagninu inni í þessu kerfi og bændur hafa getað aðlagað sig þannig að því. Þar hygg ég að t.d. sé miklu meira lagt í að jarðir haldist í byggð en hér á Íslandi.

Síðast vildi ég aðeins segja, þótt það tilheyri ekki þessari umræðu, að framlög til landbúnaðarins núna eru beingreiðslurnar og það eru nánast engin önnur framlög til landbúnaðarins, ekki nokkur einustu. Það kemur bæði til af því að um er að ræða bókhaldsatriði sem búið er að vara í langan tíma og auk þess má ekki gleyma því að það fjármagn kemur við annars staðar en bara í landbúnaðinum, og það er mikið efni til að fara yfir. Þannig eru að því er ég hygg um 40% af öllum launagreiðslum sem heyra undir landbrn. inntar af hendi í þéttbýlinu. Um 40% af öllum störfum sem heyra undir landbrn. og í tengjast því eru hér á þessu svæði. Meira að segja Framleiðnisjóðurinn innir stóran hluta af sínum greiðslum inn í hagkerfið hér. (Gripið fram í: Er það ...svæðið?) Já, m.a. Og þetta er náttúrlega mikið áhyggjuefni. Spurningin er hvar það kemur þá verst niður ef sérstaklega er að þeim vegið. Það er því mikil ástæða fyrir Alþfl. að fara svolítið gætilega í þessa umræðu og athuga hvernig þessi flokkun er almennt séð.

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að viðhafa lengri umræðu um málið að þessu sinni. Mér finnst skilgreiningin í 2. gr. --- svo ég endurtaki aðalatriðin --- þó hún skaði ekkert út af fyrir sig, náttúrlega vera algjörlega út í loftið. Ég tel að það þurfi að liggja algjörlega fyrir um hvað menn ætli að semja áður en frv. verður afgreitt frá nefndinni þannig að alþingismenn viti hvað hér er á ferðinni. Eins tel ég að það verði að vera algjörlega ljóst hvaða uppgjörsmáta á að beita við uppgjör á jarðræktarframlögunum eins og þau eru hér skilgreind.